Gistinætur á hótelum í október síðastliðnum voru 366.900 sem er 8% aukning frá sama tíma í fyrra. Um 62% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 225.900, sem er 5% aukning frá fyrra ári. Gistinóttum fjölgaði frá október 2016 í öllum landshlutum, mest á Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem þeim fjölgaði um 54%. Á sama tímabili hefur hótelum á svæðinu fjölgað úr 14 í 17 og framboð á herbergjum að sama skapi aukist um 21%.
Um 87% gistinátta á hótelum í október voru skráðar á erlenda ferðamenn og fjölgaði þeim um 8% frá fyrra ári. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 10%. Bandaríkjamenn gistu flestar nætur (97.800), síðan Bretar (62.800) og Þjóðverjar (22.600), en gistinætur Íslendinga voru 45.300.
Á tólf mánaða tímabili, frá nóvember 2016 til október 2017, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.251.000 sem er 16% aukning miðað við sama tímabil árið áður.
70,5% nýting herbergja á hótelum í október 2017
Herbergjanýting í október 2017 var 70,5%, sem er lækkun um 0,5 prósentustig frá október 2016 þegar hún var 71,0%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 6,7%, mælt í fjölda herbergja. Nýtingin var best á höfuðborgarsvæðinu, eða um 84,2%.
Gistinætur á hótelum | ||||||
Október | Nóvember–október | |||||
2016 | 2017 | % | 2015–2016 | 2016–2017 | % | |
Alls | 340.016 | 366.884 | 8 | 3.663.788 | 4.251.387 | 16 |
Höfuðborgarsvæði | 215.024 | 225.918 | 5 | 2.323.730 | 2.606.380 | 12 |
Suðurnes | 24.290 | 26.036 | 7 | 187.302 | 294.589 | 57 |
Vesturland og Vestfirðir | 10.852 | 16.752 | 54 | 167.924 | 190.408 | 13 |
Norðurland | 22.676 | 23.415 | 3 | 277.698 | 294.796 | 6 |
Austurland | 6.432 | 7.477 | 16 | 106.396 | 108.183 | 2 |
Suðurland | 60.742 | 67.286 | 11 | 600.738 | 757.031 | 26 |
Íslendingar | 41.346 | 45.310 | 10 | 389.585 | 429.422 | 10 |
Erlendir gestir | 298.670 | 321.574 | 8 | 3.274.203 | 3.821.965 | 17 |
Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.
Tölur fyrir 2017 eru bráðabirgðatölur. Um þessar mundir fer fram vinna við endurskoðun á skiptingu gistinátta eftir þjóðerni ferðamanna. Þessi vinna hefur ekki áhrif á heildarfjölda gistinátta en gæti haft áhrif á hlutfall milli erlendra og innlendra ferðamanna. Stefnt er að því að ljúka þessari vinnu fyrir útgáfu endanlegra talna fyrir gistinætur á öllum tegundum gististaða fyrir árið 2017.