FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 06. NÓVEMBER 2006


Gistinóttum á hótelum í september fjölgaði um 22% milli ára

Gistinætur á hótelum í september síðastliðnum voru 114.600 en voru 93.900 í sama mánuði árið 2005, sem er fjölgun um 20.700 nætur, eða 22%. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum. Aukningin var hlutfallslega mest á Norðurlandi þar sem gistinætur fóru úr 6.500 í 9.300 milli ára, 43% aukning. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum úr 3.700 í 4.700, eða um 27%. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum um tæp 24%, úr 8.900 í 11.000. Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 20% milli ára. Þar fór gistináttafjöldinn úr 64.600 í 77.500 milli ára. Á Suðurlandi fóru gistinætur á hótelum í september úr 10.200 í 12.100 milli ára og fjölgaði þar með um rúm 18%.

Fjölgun gistinátta á hótelum í ágúst árið 2006 skiptist þannig að gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 23% og útlendinga um22%. Útlendingar vega þó þyngra þar sem gistinætur þeirra eru rúm 80% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í september síðastliðnum.

Gistirými á hótelum í septembermánuði jókst milli ára. Fjöldi herbergja fór úr 3.740 í 3.973, 6% aukning og fjöldi rúma úr 7.566 í 7.995, 6% aukning. Hótelin eru jafnmörg bæði árin, 75.

Gistinóttum á hótelum janúar - september fjölgaði um 11%
Á fyrstu níu mánuðum ársins fjölgaði gistinóttum um 11% frá fyrra ári, en gistináttafjöldinn fór úr 848.700 í 943.700 milli ára. Fjölgun varð á öllum landsvæðum. Hlutfallslega varð aukningin mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem gistinóttum fjölgaði um 23%. Á Norðurlandi nam aukningin 13%, Suðurlandi 11%, Austurlandi 10% og á höfuðborgarsvæðinu 10%. Fjölgun gistinátta á þessu tímabili skiptist þannig að gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 13% og útlendinga um 11%. Eins og áður sagði vegur fjölgun gistinátta útlendinga þyngra þar sem gistinætur þeirra eru um 80% af heildarfjölda gistinátta á hótelum þetta tímabil. Sömu sögu er að segja um gistinætur á höfuðborgarsvæðinu, en þær nema um 65% af heildarfjölda gistinátta.

Athygli skal vakin á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.

Tölur fyrir Suðurnes, Vesturland og Vestfirði eru lagðar saman og birtar í einu lagi vegna þess hve gististaðir á Suðurnesjum og Vestfjörðum eru fáir.

Tölur fyrir 2006 eru bráðabirgðatölur.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.