FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 03. NÓVEMBER 2010


Gistinóttum fækkar um rúm 8%
Gistinætur á hótelum í september síðastliðnum voru 111.200 en 121.200 í sama mánuði í fyrra.

Gistinóttum fækkaði í öllum landshlutum í september nema á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum. Þar fjölgaði þeim um 12%. Hlutfallslega fækkaði gistinóttum mest á Austurlandi, voru 4.700 í fyrra en 3.800 nú, en fækkunin nemur rúmum 19%. Á Suðurlandi fækkaði gistinóttum um 18%, voru 13.700 en 11.200 nú. Á Norðurlandi fækkaði þeim um 8%, voru 10.300 nú en 11.200 í september í fyrra. Á höfuðborgarsvæðinu voru 76.300 gistinætur í september en það er 8% minna en í fyrra þegar þær voru 83.000.

Fækkun gistinátta á hótelum í september skýrist eingöngu af erlendum gestum, en gistinóttum þeirra fækkaði um 12% miðað við september 2009. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði hins vegar um 10%.

Gistinóttum á hótelum fyrstu níu mánuði ársins fækkar um rúm 3% milli ára
Gistinætur fyrstu níu mánuði ársins voru 1.062.700 en 1.100.000 á sama tímabili árið 2009. Þeim fjölgaði á Vesturlandi og Vestfjörðum um 3% og um 1% á Suðurnesjum. Þeim fækkar í öðrum landshlutum, um 6% á Norðurlandi og Austurlandi, 4% á höfuðborgarsvæðinu og 2% á Suðurlandi.

Fyrstu níu mánuði ársins hefur gistinóttum Íslendinga fækkað um 6% og gistinóttum útlendinga um 3% miðað við sama tímabil árið 2009.

Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Tölur fyrir 2010 eru bráðabirgðatölur.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.