Gistinætur á hótelum í september voru 357.100 sem er 37% aukning miðað við september 2015. Gistinætur erlendra gesta voru 89% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 38% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 27%.
Flestar gistinætur á hótelum í september voru á höfuðborgarsvæðinu eða 199.600 sem er 30% aukning miðað við september 2015. Um 56% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu. Næstflestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 52.600. Erlendir gestir með flestar gistinætur í september voru Bandaríkjamenn með 100.800, Þjóðverjar með 42.600 og Bretar með 39.600 gistinætur.
Á tólf mánaða tímabili frá október 2015 til september 2016 voru gistinætur á hótelum 3.505.700 sem er 29% aukning miðað við sama tímabil árið áður og 2,7% aukning frá fyrri mánuði á gistinóttum yfir 12 mánaða tímabil.
80,0% nýting herbergja á hótelum í september 2016
Herbergjanýting í september 2016 var 80,0%, sem er aukning um 13,3 prósentustig frá september 2015, þegar hún var 66,7%. Nýtingin var best á Suðurnesjum, eða um 92,3%. Herbergjanýting á höfuðborgarsvæðinu var 87,2%.
Gistinætur á hótelum | ||||||
September | Október - september | |||||
2015 | 2016 | % | 2014-2015 | 2015-2016 | % | |
Alls | 261.219 | 357.127 | 37 | 2.711.311 | 3.505.708 | 29 |
Höfuðborgarsvæði | 153.844 | 199.599 | 30 | 1.752.888 | 2.244.031 | 28 |
Suðurnes | 13.591 | 25.863 | 90 | 138.291 | 176.392 | 28 |
Vesturland og Vestfirðir | 13.815 | 20.287 | 47 | 120.372 | 163.654 | 36 |
Norðurland | 22.739 | 35.661 | 57 | 185.493 | 266.918 | 44 |
Austurland | 15.572 | 23.091 | 48 | 118.866 | 165.541 | 39 |
Suðurland | 41.658 | 52.626 | 26 | 395.401 | 489.172 | 24 |
Íslendingar | 29.643 | 37.720 | 27 | 327.910 | 369.054 | 13 |
Erlendir gestir | 231.576 | 319.407 | 38 | 2.383.401 | 3.136.654 | 32 |
Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Vegna bættrar flokkunar gististaða í gistináttagrunni Hagstofunnar hafa orðið smávægilegar breytingar á tölulegum upplýsingum um gistinætur á hótelum sem ná aftur til upphafs ársins 2015. Töflur á vef Hagstofunnar hafa verið leiðréttar til samræmis við þetta.
Að lokum má nefna að fyrr í mánuðinum hóf Hagstofa Íslands birtingar á tölum frá Samgöngustofu um fjölda bílaleigubíla eftir skráningu og mánuðum. Þær tölur verða uppfærðar mánaðarlega og má nálgast þær á vef Hagstofunnar undir flokknum Hagvísar í ferðaþjónustu.