FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 04. SEPTEMBER 2018

Gistinætur ferðamanna í júlí síðastliðnum voru 1.405.400 á gististöðum sem skráðir eru í gistináttagrunn Hagstofunnar, en þær voru 1.402.900 í sama mánuði árið áður. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 695.700 og gistinætur á öðrum tegundum gististaða (svo sem farfuglaheimilum, svefnpokaplássi og tjaldsvæðum) voru 709.700. Fjöldi gistinátta í júlí á skráðum gististöðum stóð nánast í stað milli ára, þar af var 1,6% fækkun á hótelum og gistiheimilum en 2,0% fjölgun á öðrum tegundum gististaða.

Verið er að yfirfara niðurstöður landamærarannsóknar Hagstofu Íslands og endurskoða aðferðir við áætlun gistinátta á stöðum sem taka við gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður, auk áætlunar á ógreiddum gistinóttum, s.s. í bílum utan gjaldskyldra tjaldsvæða, við húsaskipti o.þ.h. Tölur um gistinætur í júlí sem miðlað var gegnum Airbnb og ógreiddar gistinætur verða birtar svo fljótt sem auðið er þegar þeirri endurskoðun er lokið.

Gistinætur á hótelum drógust saman um 1,4% í júlí
Gistinætur á hótelum í júlí síðastliðnum voru 466.800, sem er 1,4% samdráttur frá sama mánuði árið áður. Um 51% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 238.700.

Um 91% gistinátta á hótelum voru skráðar á erlenda ferðamenn eða 425.300. Bandaríkjamenn voru með flestar gistinætur (151.500), síðan Þjóðverjar (54.400) og Bretar (28.500), en gistinætur Íslendinga voru 41.500.

Á tólf mánaða tímabili, frá ágúst 2017 til júlí 2018, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.295.000 sem er 2% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Gistinætur á hótelum
  Júlí   Ágúst–júlí  
  2017 2018 % 2016-2017 2017-2018 %
             
Alls 473.604 466.754 -1 4.198.125 4.295.220 2
Höfuðborgarsvæði 246.615 238.734 -3 2.584.041 2.587.236 0
Suðurnes 35.230 33.890 -4 283.167 299.283 6
Vesturland og Vestfirðir 29.745 28.406 -5 183.259 197.552 8
Norðurland 47.612 46.846 -2 293.098 303.877 4
Austurland 21.067 19.206 -9 107.725 103.893 -4
Suðurland 93.335 99.672 7 746.835 803.379 8
             
Íslendingar 38.667 41.479 7 414.773 441.250 6
Erlendir gestir 434.937 425.275 -2 3.783.352 3.853.970 2

83% nýting herbergja á hótelum í júlí
Herbergjanýting í júlí 2018 var 82,8%, sem er lækkun um 6,4 prósentustig frá júlí 2017 þegar hún var 89,2%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 5,3% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í júlí var best á Suðurnesjum, eða 91,5%.

Lýsigögn
Gistináttatölur fyrir hótel koma úr gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Áætlun á gistinóttum utan hefðbundinnar gistináttatalningar byggist á niðurstöðum úr landamærarannsókn meðal erlendra ferðamanna sem framkvæmd er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og gögnum úr gistináttagrunni Hagstofunnar. Við landsvæðaskiptingu þessara talna er stuðst við vefskröpun og gögn úr gistináttagrunni Hagstofunnar. Frekari lýsigögn um fjölda gististaða, gesta og gistinátta má nálgast á vef Hagstofunnar.

Tölur fyrir 2018 eru bráðabirgðatölur.

Talnaefni
Hagstofa Íslands gefur mánaðarlega út tölur um fjölda gistinátta, gesta og magn gistirýmis á hótelum, auk áætlaðra talna um fjölda gistinátta á gistiheimilum og öðrum tegundum gististaða. Einnig birtir Hagstofa Íslands tölur um eftirfarandi skammtímahagvísa í ferðaþjónustu mánaðarlega eða (í tilviki VSK-veltu) á tveggja mánaða fresti.

Talnaefni:
Gistinætur
Hagvísar í ferðaþjónustu
Farþegar til landsins

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.