Seldar gistinætur voru 6,5 milljónir hér á landi árið 2015 og fjölgaði um 19% frá fyrra ári. Gistinætur erlendra ferðamanna voru 86% af heildarfjölda gistinátta og fjölgaði um 27% frá fyrra ári. Gistinóttum Íslendinga fækkaði um 14%. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 63% allra gistinátta, 13% gistinátta voru á tjaldsvæðum og 24% á öðrum tegundum gististaða. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum á milli ára. Sem fyrr voru flestar gistinætur á höfuðborgarsvæðinu en hlutfallslega fjölgaði gistinóttum þó mest á Vesturlandi og Suðurnesjum.
Mikil aukning hefur orðið á seldum gistinóttum undanfarin ár. Þannig hefur heildarfjöldi gistinátta aukist um 3,3 milljónir eða ríflega tvöfaldast frá árinu 2011. Á þessum tíma hefur gistinóttum erlendra ríkisborgara fjölgað um 129,3% en gistinóttum Íslendinga hefur fjölgað um 15,6%.
Samhliða fjölgun gistinátta hefur framboð gistirýmis vaxið mikið á undanförnum árum. Gistináttatölur fyrir árið 2015 ná yfir 1189 gististaði. Mikil umræða hefur verið um aðila sem selja gistingu um vef Airbnb. Flestir stærri gististaðir á Airbnb eru meðtaldir í gögnum Hagstofunnar en ljóst er að töluvert vantar upp á fjölda smærri gististaða með 2 eða færri herbergi.
Gistinætur á öllum tegundum gististaða 2011-2015 | |||||
2011 | 2012 | 2013 | 2014 | 2015 | |
Alls | 3.248.960 | 3.751.513 | 4.546.383 | 5.489.986 | 6.536.352 |
Íslendingar | 804.715 | 853.502 | 1.024.559 | 1.085.049 | 930.653 |
Útlendingar | 2.444.245 | 2.898.011 | 3.521.824 | 4.404.937 | 5.605.699 |
Gistingar ferðamanna 2015 - Hagtíðindi