Gistinætur á hótelum í febrúar voru 194.800 sem er 21% aukning miðað við febrúar 2014. Gistinætur erlendra gesta voru 87% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 25% frá sama tíma í fyrra. Fjöldi gistinátta Íslendinga var svipaður milli ára.
Flestar gistinætur á hótelum í febrúar voru á höfuðborgarsvæðinu eða 145.200 sem er 18% aukning miðað við febrúar 2014. Næst flestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 25.100. Af erlendum gestum voru Bretar með flestar gistinætur í febrúar, 76.200, því næst Bandaríkjamenn með 30.500 og loks Þjóðverjar með 13.400 gistinætur.
66% nýting herbergja á hótelum í febrúar 2015
Nýting herbergja í febrúar var best á höfuðborgarsvæðinu eða um 90%. Á Suðurnesjum var herbergjanýting tæp 61%.
Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.