Seldar gistinætur voru 4,3 milljónir hér á landi árið 2013 og fjölgaði um tæp 15% frá fyrra ári. Gistinætur erlendra gesta voru 79% af heildarfjölda gistinátta og fjölgaði þeim um 17% frá árinu 2012 en gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 8%. Tveir þriðju allra gistinátta voru á hótelum og gistiheimilum, 12% á tjaldsvæðum og 22% á öðrum tegundum gististaða. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum á milli ára nema á Vestfjörðum.

Mikil aukning hefur orðið á seldum gistinóttum undanfarin ár. Á síðastliðnum fimm árum hefur heildarfjöldi gistinátta aukist um 1,3 milljónir eða um 42,5%. Framboð gistirýmis hefur ekki aðeins aukist mjög á þessum tíma, heldur hefur nýtingin einnig aukist. Á síðasta ári var nýting herbergja á hótelum og gistiheimilum 54,3%. Til samanburðar var þessi nýting 46,2% árið 2009.

Eins og mörg undanfarin ár gistu Þjóðverjar flestar nætur í fyrra, þá Bretar og svo Bandaríkjamenn. Sú nýbreytni varð á árinu 2013 að öllum þjóðernum gesta var safnað og er landatafla gistinátta birt með 47 þjóðernum og fimm safnflokkum.

Gistingar ferðamanna 2013 - Hagtíðindi

Talnaefni