Bráðabirgðaniðurstöður ferðaþjónustureikninga fyrir árið 2016 gefa til kynna að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi numið 8,4% árið 2016. Til samanburðar nam hlutur ferðaþjónustunnar 6,7% árið 2015 og 5,6% árið 2014.

Í atvinnugrein sem er ört vaxandi og hefur sífellt meiri slagþunga í gangverki hagkerfisins er mikilvægt að stjórnvöld, almenningur og hagsmunaaðilar hafi aðgang að tímanlegum og áreiðanlegum upplýsingum. Með útgáfu bráðabirgðaniðurstaðna ferðaþjónustureikninga leitast Hagstofan við að svara þörfum notenda fyrir tímanlegri upplýsingar um stöðu og þróun greinarinnar.

Uppfærðar niðurstöður verða birtar samhliða útgáfu þjóðhagsreikninga í mars 2018.

Hlutur ferðaþjónustu samanborið við aðra atvinnugreinaflokka árið 2016
Þegar hlutdeild ferðaþjónustu í landsframleiðslu er borin saman við aðrar atvinnugreinar þarf að hafa í huga að ferðaþjónusta er ekki til sem sérstök atvinnugrein í hefðbundinni atvinnugreinaflokkun, heldur er hún samsett grein þar sem lagt er saman tiltekið hlutfall af starfsemi annarra atvinnugreina.

Um ferðaþjónustureikninga
Ferðaþjónustureikningar eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar.

Það er nýmæli í útgáfu ferðaþjónustureikninga að birtar séu tölur um hlutdeild í ferðaþjónustu svo fljótlega eftir að rekstrarári lýkur en niðurstöður ferðaþjónustureikninga hafa hingað til byggst að stórum hluta á upplýsingum úr rekstrarframtölum fyrirtækja sem ekki eru aðgengilegar nema með nokkurri tímatöf. Bráðabirgðaniðurstöður byggja á fjölbreyttari heimildum við mat á umfangi ferðaþjónustunnar.

Talnaefni