Tekjur af erlendum ferðamönnum á þriðja ársfjórðungi 2024 námu tæplega 241 milljörðum króna samanborið við 235 milljarða á þriðja ársfjórðungi 2023. Á 12 mánaða tímabili frá október 2023 til september 2024 voru tekjur af erlendum ferðamönnum tæplega 612 milljarða króna samanborið við 587 milljarða fyrir sama tímabil árinu áður.
Fjöldi starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi var 31.571 í október 2024 sem er 1% færri en í október 2023 þegar fjöldinn var 31.815. Á tólf mánaða tímabili frá nóvember 2023 til október 2024 störfuðu að jafnaði um 31.487 í einkennandi greinum ferðaþjónustu samanborið við 31.144 fyrir sama tímabil frá árinu áður.
Velta samkvæmt virðisaukaskattskýrslum í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi nam 174 milljörðum króna í september til október sem er um það bil 3% aukning samanborið við sama tímabil 2023.
Gistinætur á hótelum í október 2024 voru 513.804 samanborið við 493.189 í október á síðasta ári. Frekari upplýsingar um gistinætur er að finna á vef Hagstofunnar undir flokknum Ferðaþjónusta.
Í nóvember voru 197.735 brottfarir farþega frá Keflavíkurflugvelli í samanburði við 193.788 í nóvember 2023. Brottfarir farþega með erlent ríkisfang voru 162.273 samanborið við 148.410 í nóvember 2023 sem er fjölgun farþega um 9% á milli ára.
Í þessari frétt eru ekki birtar tölur um umferð á hringveginum frá Vegagerðinni, þær verða að öllum líkindum birtar í janúar 2025.
Í þessari útgáfu skammtímahagvísa ferðaþjónustu eru birtar uppfærðar tölur um gistinætur, veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum, þjónustuviðskipti við útlönd, fjölda starfandi skv. skrám, skráningar bílaleigubíla frá Samgöngustofu og fjölda farþega frá Ferðamálastofu út frá þjóðernum auk talna um farþegaflutninga og flughreyfingar frá ISAVIA.
Talnaefni
Hagvísar í ferðaþjónustu
Farþegar um Keflavíkurflugvöll