Velta fyrir tímabilið mars til apríl 2023 í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi var tæplega 121 milljarður króna samkvæmt virðisaukaskattskýrslum sem er um það bil 36% meiri velta en á sama tímabili í fyrra þegar hún var tæplega 89 milljarðar króna.
Gistinætur á hótelum í maí 2023 voru 410.463 samanborið við 328.885 í maí 2022. Gistinætur erlendra gesta voru 333.204 í maí eða 29% fleiri en á sama tíma árið áður. Gistinætur Íslendinga voru 77.259 sem er 11% aukning á milli ára.
Fjöldi starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi voru 33.414 í maí 2023 sem er 14% aukning samanborið við maí 2022. Á tólf mánaða tímabili frá júní 2022 til maí 2023 störfuðu að jafnaði um 30.615 í einkennandi greinum ferðaþjónustu samanborið við 24.832 fyrir sama tímabil ári fyrr.
Í júní voru 288.593 brottfarir farþega frá Keflavíkurflugvelli í samanburði við 242.537 í júní 2022. Brottfarir farþega með erlent ríkisfang voru 233.309 samanborið við 176.680 í júní í fyrra.
Í þessari útgáfu skammtímahagvísa ferðaþjónustu eru birtar uppfærðar tölur um veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum, gistinætur, fjölda starfandi skv. skrám, skráningar bílaleigubíla frá Samgöngustofu, umferð á hringveginum frá Vegagerðinni og fjölda farþega frá Ferðamálastofu út frá þjóðernum auk talna um farþegaflutninga og flughreyfingar frá ISAVIA.
Talnaefni
Hagvísar í ferðaþjónustu
Farþegar um Keflavíkurflugvöll
Meðal dagleg umferð á stofnvegum eftir mánuðum
Tekjur af erlendum ferðamönnum