Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera á árunum 1998-2006, en í haust sem leið réðst Hagstofan í endurskoðun á fjármálum hins opinbera aftur til ársins 1998. Sú endurskoðun fól fyrst og fremst í sér nákvæmari og dýpri flokkun tekna og gjalda í samræmi við nýja alþjóðlega staðla. Afrakstur þeirrar endurskoðunar er að finna á vefsíðu Hagstofunnar og nýútgefnum Hagtíðindum, sem gefa talnalegt yfirlit um helstu þætti opinberra fjármála, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og almannatrygginga, á þessu árabili. Áherslan er fyrst og fremst á hið opinbera en samsvarandi upplýsingar um undirgeira þess er að finna á vefsíðu Hagstofunnar.
Af helstu niðurstöðum má nefna að á tímabilinu 1998-2006 hefur tekjuafkoma hins opinbera sveiflast verulega eins og sést á mynd 1. Hún var jákvæð um 5,3% af landsframleiðslu 2006 eða um 61 milljarð króna samkvæmt bráðabirgðatölum en neikvæð um 0,4% af landsframleiðslu árið 1998. Slökust var hún 2003 eða neikvæð um 2,8% af landsframleiðslu.
Tekjur hins opinbera urðu um 533 milljarðar króna 2006 eða 46,7% af landsframleiðslu samanborið við 41% af landsframleiðslu árið 1998. Tekjuaukningin á tímabilinu er umtalsverð mæld á þennan veg. Útgjöldin mældust rúmlega 472 milljarðar króna 2006 eða 41,4% af landsframleiðslu sem er svipað hlutfall og 1998. Hámarki náðu þau 2003 eða 45,7% af landsframleiðslu.
Á árinu 2005 námu heildarútgjöld til heilbrigðismála 96,3 milljörðum króna, eða 9,43% af landsframleiðslu, og heildarútgjöld til fræðslumála 85,6 milljörðum króna eða 8,35% af landsframleiðslu. Í báðum tilfellum eru útgjöld heimilanna til þessara málaflokka talin með. Til almannatrygginga og velferðarmála ráðstafaði hið opinbera um 91 milljarði króna 2005 eða 21% útgjalda sinna, en það svarar til 8,9% af landsframleiðslu. Sem hlutfall af landsframleiðslu voru þessi útgjöld hæst 2003 eða 9,7% af landsframleiðslu, en árið 1998 námu þau ríflega 7,7% af landsframleiðslu eins og lesa má af mynd 2.
Skuldir hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu hafa lækkað á undanförnum árum. Þær námu um 53% af landsframleiðslu 2005 eða um 540 milljörðum króna, en 77½% af landsframleiðslu árið 1998. Verulega hefur dregið úr erlendum lántökum, sem voru um 10½% af landsframleiðslu 2005 samanborið við rúmlega 22% árið 1998.
Fjármál hins opinbera 1998-2006 - Hagtíðindi
Talnaefni