FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 27. SEPTEMBER 2007

Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera árið 2006. Gefið er talnalegt yfirlit um helstu þætti opinberra fjármála, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og almanna-trygginga og er áherslan er fyrst og fremst á hið opinbera en samsvarandi upplýsingar um undirgeira þess er að finna á vefsíðu Hagstofunnar.

Af helstu niðurstöðum má nefna að tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um 81 milljarð króna árið 2006, eða 7% af landsframleiðslu, og hefur hún ekki mælst hagstæðari áður. Til samanburðar var tekjuafkoman jákvæð um 5,2% af landsframleiðslu 2005 og 0,2% árið 2004. Þessi góða tekjuafkoma stafar fyrst og fremst af miklum tekjuafgangi ríkissjóðs, sem nam 5,3% af landsframleiðslu árið 2006 og 4,5% árið 2005. Fjárhagur sveitarfélaganna hefur einnig snúist til betri vegar síðustu tvö árin, enda þótt hann sé afar misjafn. Árið 2006 nam tekjuafgangur þeirra 11 milljörðum króna, eða 0,9% af landsframleiðslu, og árið 2005 4,4 milljörðum króna, eða 0,4% af landsframleiðslu. 

 

Tekjur hins opinbera mældust 567,6 milljarðar króna árið 2006 og hækkuðu um tæpan 81 milljarð króna milli ára. Sem hlutfall af landsframleiðslu námu tekjurnar 48,8% og hafa ekki verið hærri áður, en samsvarandi hlutfall var 47,6% árið 2005. Mikil hækkun hefur orðið í tekjum hins opinbera frá árinu 2002 er þær mældust 41,7% af landsframleiðslu. Útgjöld hins opinbera námu 486,6 milljörðum króna árið 2006 og hækkuðu um ríflega 53 milljarða króna milli ára, en sem hlutfall af landsframleiðslu lækkuðu þau hins vegar úr 42,3% árið 2005 í 41,8% árið 2006.

Árið 2006 námu heildarútgjöld til heilbrigðismála 107,5 milljörðum króna, eða 9,2% af landsframleiðslu. Þar af var hlutur hins opinbera 89,8 milljarðar króna en hlutur heimila 17,7 milljarðar, eða 16,5% af útgjöldunum. Af heildarútgjöldum hins opinbera 2006 runnu 20% til heilbrigðismála. Til fræðslumála var ráðstafað 96,5 milljörðum króna á árinu 2006, eða 8,3% af landsframleiðslu. Þar af var fjármögnun hins opinbera 88,2 milljarðar króna og hlutur heimilanna 8,3 milljarðar króna, eða 8,6%. Um fimmtungur útgjalda hins opinbera rennur til fræðslumála. Til almannatrygginga og velferðarmála ráðstafaði hið opinbera 94,6 milljörðum króna á árinu 2006, eða ríflega 8,1% af landsframleiðslu, og nam hækkunin milli ára 3,8 milljörðum króna. Hámarki náðu þessi útgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu árið 2003 er þau mældust 9,7% af landsframleiðslu.

Hrein peningaleg eign hins opinbera, þ.e. peningaleg eign umfram skuldir, var neikvæð um 92,6 milljarða króna í árslok 2006, eða um 8% af landsframleiðslu. Hún hafði þó batnað um 46,7 milljarða króna milli ára og um 164,5 milljarða króna síðustu tvö árin, eða um 20 prósentustig af landsframleiðslu.

Fjármál hins opinbera 2006 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.