Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera árið 2008. Gefið er talnalegt yfirlit um helstu þætti opinberra fjármála, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og almannatrygginga, og er áhersla fyrst og fremst lögð á hið opinbera en samsvarandi upplýsingar um undirgeira þess er að finna á vef Hagstofunnar.
Af helstu niðurstöðum má nefna að tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 200 milljarða króna árið 2008, eða 13,6% af landsframleiðslu og 30,6% af tekjum þess. Til samanburðar var tekjuafkoman jákvæð um 5,4% af landsframleiðslu 2007 og 6,3% árið 2006. Þessi skarpi viðsnúningur skýrist fyrst og fremst af 192,2 milljarða króna yfirtöku ríkissjóðs á töpuðum kröfum vegna veðlána Seðlabanka Íslands en án hennar var tekjuafkoman neikvæð um 8 milljarða króna eða 0,5% af landsframleiðslu. Að yfirtökunni undanskilinni jukust útgjöld hins opinbera um 19,6% milli ára á sama tíma og skatttekjur jukust um aðeins 2%. Vegna umfangs ríkissjóðs ræður tekjuafkoma hans að sjálfsögðu miklu um þróun í afkomu hins opinbera í heild. Tekjuafkoma sveitarfélaga hefur einnig snúist til verri vegar, en á árinu 2008 nam tekjuhalli þeirra 12,9 milljörðum króna eða 0,9% af landsframleiðslu og 6,7% af tekjum þeirra.
Tekjur hins opinbera reyndust 654 milljarðar króna 2008 og hækkuðu um 30 milljarða króna milli ára eða 4,8%, en lækkuðu um 6,4% að raunvirði miðað við verðvísitölu landsframleiðslu. Sem hlutfall af landsframleiðslu námu þær 44,3% samanborið við 47,9% árið 2007 og hafa því lækkað umtalsvert á þennan mælikvarða. Útgjöld hins opinbera námu hins vegar 854 milljörðum króna árið 2008 og hækkuðu um 300 milljarða króna milli ára, eða úr 42,5% af landsframleiðslu árið 2007 í 57,8% árið 2008. Að yfirtöku ríkissjóðs á töpuðum kröfum Seðlabankans undanskilinni hækkuðu útgjöld hins opinbera um 6,8% að raunvirði milli ára og námu 44,8% af landsframleiðslu.
1.192,2 milljarða króna yfirtaka ríkissjóðs á töpuðum veðlánum Seðlabanka Íslands 2008
er ekki meðtalin undir efnahags- og atvinnumálum.
Heildarútgjöld til heilbrigðismála voru 135,2 milljarðar króna 2008, eða 9,2% af lands-framleiðslu. Þar af var hlutur hins opinbera 111,7 milljarðar króna en hlutur heimila 23,5 milljarðar, eða 17,4% af útgjöldunum. Til fræðslumála var ráðstafað 122,4 milljörðum króna á árinu 2008, eða 8,3% af landsframleiðslu. Þar af var fjármögnun hins opinbera 111,8 milljarðar króna og hlutur heimilanna 10,5 milljarðar króna, eða 8,6%. Til almannatrygginga og velferðarmála ráðstafaði hið opinbera 132 milljörðum króna 2008, eða 8,9% af landsframleiðslu, og nam hækkunin milli ára 20,5 milljörðum króna.
Hrein peningaleg eign hins opinbera, þ.e. peningaleg eign umfram skuldir, var neikvæð um 293,5 milljarða króna í árslok 2008, eða sem svarar 19,9% af landsframleiðslu. Hún hafði versnað um 307 milljarða króna milli ára eða um 20,9% af landsframleiðslu. Peningalegar eignir hins opinbera námu 1.128 milljörðum króna í árslok 2008 og heildarskuldir 1.422 milljörðum króna.
Rétt er að vekja athygli á því að 300 milljarða króna hlutafjárvilyrði ríkissjóðs og fjármögnun þess vegna yfirtöku bankanna 2008 er ekki meðtalin í peningalegum eignum og skuldum hins opinbera í árslok 2008 til samræmis við uppgjör ríkissjóðs.
Fjármál hins opinbera 2008 - Hagtíðindi