FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 08. MARS 2010

Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera árið 2009. Gefið er talnalegt yfirlit um helstu þætti opinberra fjármála, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og almannatrygginga og er áherslan fyrst og fremst á hið opinbera en samsvarandi upplýsingar um undirgeira þess er að finna á vefsíðu Hagstofunnar.

Af helstu niðurstöðum má nefna hreinu peningaleg eign hins opinbera, þ.e. peningaleg eign umfram skuldir, var neikvæð um 615 milljarða króna í árslok 2009, eða sem svarar 41% af landsframleiðslu. Staðan versnaði um 322 milljarða króna á árinu eða um ríflega 22% af landsframleiðslu. Peningalegar eignir hins opinbera námu 1.226 milljörðum króna í árslok 2009 (81,7% af VLF) og heildarskuldir 1.841 milljarði króna (122,7% af VLF). Fara þarf aftur til ársins 1998 til að finna lakari eignastöðu en á því ári var hrein peningaleg eign hins opinbera neikvæð um 42,6% af landsframleiðslu.


 

Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 137 milljarða króna árið 2009, eða sem nemur 9,1% af landsframleiðslu og 21,5% af tekjum þess. Til samanburðar var tekjuafkoman neikvæð um 13,6% af landsframleiðslu 2008 en jákvæð um 5,4% árið 2007. Án 192 milljarða króna skuldaryfirtöku ríkissjóðs var tekjuhalli hins opinbera 8 milljarðar króna árið 2008 eða 0,6% af landsframleiðslu. Þessi óhagstæða þróun á árinu 2009 skýrist meðal annars af 31 milljarða króna minni skatttekjum en árið áður á sama tíma og vaxtagjöldin jukust um ríflega 52 milljarða króna og félagslegar tilfærslur til heimila um 33 milljarða króna meðal annars vegna aukins atvinnuleysis. Þá jókst samneysla hins opinbera um ríflega 24 milljarða króna, en hún dróst saman um 3% að magni til á árinu.

Tekjur hins opinbera námu um 636 milljörðum króna árið 2009 og lækkuðu um 17,5  milljarða króna milli ára eða 2,7%. Sem hlutfall af landsframleiðslu mældust þær 42,4% samanborið við 44,2% árið 2008 og 47,9% árið 2007 og hafa því lækkað umtalsvert á þennan mælikvarða. Útgjöld hins opinbera eru áætluð um 773 milljarðar króna árið 2009 og lækkuðu því um 81 milljarð króna milli ára, eða úr 57,8% af landsframleiðslu 2008 í 51,5% 2009. Að 192 milljarða króna skuldaryfirtöku ríkissjóðs 2008 undanskilinni hækkuðu útgjöld hins opinbera um ríflega 111 milljarða króna milli ára.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála voru ríflega 144 milljarðar króna 2009, eða 9,6% af lands-framleiðslu. Þar af var hlutur hins opinbera ríflega 118 milljarðar króna en hlutur heimila 26 milljarðar, eða 18% af útgjöldunum. Af heildarútgjöldum hins opinbera 2009 runnu rúmlega 16% til heilbrigðismála. Til fræðslumála var ráðstafað ríflega 131 milljarði króna á árinu 2009, eða 8,8% af landsframleiðslu. Þar af fjármagnaði hið opinbera rúmlega 120 milljarða króna og heimilin 11 milljarða króna, eða 8,4%. Um 17,3% útgjalda hins opinbera runnu til fræðslu¬mála. Til almannatrygginga og velferðarmála ráðstafaði hið opinbera 165 milljörðum króna 2009 (21,3% útgjalda sinna), eða 11% af landsframleiðslu, og nam hækkunin milli ára 33 milljörðum króna.

Fjármál hins opinbera 2009, bráðabirgðauppgjör - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.