FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 13. DESEMBER 2018

Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um 13,9 milljarða króna árið 2017 eða sem nemur 0,5% af landsframleiðslu. Til samanburðar var tekjuafkoman jákvæð um 309,6 milljarða króna árið 2016 eða 12,4% af landsframleiðslu. Góð afkoma árið 2016 skýrist öðru fremur af 384,2 milljarða króna stöðugleikaframlagi frá slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja.

Tekjur hins opinbera námu um 1.146,5 milljörðum króna árið 2017. Sem hlutfall af landsframleiðslu mældust þær 43,8% samanborið við 56,7% árið 2016. Útgjöld hins opinbera voru 1.132,6 milljarðar króna 2017 eða 43,3% af landsframleiðslu ársins samanborið við 44,3% árið 2016.

Skýringar: 192 ma. kr. yfirtaka ríkissjóðs 2008 á töpuðum kröfum Seðlabanka Íslands er meðtalin. Tekjur af stöðugleikaframlagi upp á 384,2 ma.kr. eru meðtaldar 2016. Fjármagnstilfærsla ríkissjóðs til LSR upp á 105,1 ma.kr. er meðtalin 2016. Fjármagnstilfærsla sveitarfélaga til Brúar lífeyrissjóðs upp á 32,0 ma.kr. er meðtalin 2017.

Hrein peningaleg eign hins opinbera var neikvæð um 526 milljarða króna í árslok 2017 eða 20,1% af vergri landsframleiðslu. Hrein peningaleg eign hins opinbera hefur batnað um 326,1 milljarða króna frá því í árslok 2016. Peningalegar eignir námu 1.476,5 milljörðum króna og heildarskuldir 2.002,2 milljörðum króna í árslok 2017.

Út eru komin Hagtíðindi um fjármál hins opinbera árið 2017. Í því má finna talnalegt yfirlit um helstu þætti opinberra fjármála, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og almannatrygginga. Áherslan er fyrst og fremst á hið opinbera en samsvarandi upplýsingar um undirgeira þess er að finna á vefsíðu Hagstofunnar.

Fjármál hins opinbera 2017, endurskoðun - Hagtíðindi
Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang opinberfjarmal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.