Vinsamlegast athugið að þessari fréttatilkynningu var breytt 30. október 2020 frá upprunalegri útgáfu. Leiðrétt var umfjöllun um eignir og skuldir hins opinbera og talnaefni uppfært til samræmis. Sjá nánar í töflunni „Peningalegar eignir og skuldir hins opinbera“ og mynd „Skuldir ríkissjóðs og sveitarfélaga sem hlutfall af VLF“ neðst í fréttinni.
Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 45,4 milljarða króna árið 2019, eða sem nemur 1,5% af vergri landsframleiðslu ársins (VLF). Til samanburðar var afkoman jákvæð um 22,1 milljarð króna árið 2018, eða 0,8% af landsframleiðslu. Versnandi afkoma hins opinbera er í takt við bráðabirgðatölur landsframleiðslu fyrir árið 2019 en samkvæmt þeim dróst landsframleiðsla á mann saman um 0,3% að raungildi árið 2019.
2008: Gjöld ríkissjóðs: 192,2 milljarða króna yfirtaka ríkissjóðs 2008 á töpuðum kröfum vegna veðlána Seðlabankans er meðtalin. 2016: Tekjufært er 384,2 ma.kr. vegna stöðugleikaframlags. Gjaldfært er vegna 105,1 milljarða króna færslu ríkissjóðs til A-hluta LSR. 2017: Gjöld sveitarfélaga: Fjármagnstilfærsla til Brúar lífeyrissjóðs upp á 32 ma.kr.
Tekjur hins opinbera lækkuðu í hlutfalli af VLF meðan útgjöldin stóðu í stað
Tekjur hins opinbera námu 1.210,7 milljörðum króna árið 2019, eða sem nemur 40,8% af landsframleiðslu. Til samanburðar mældust tekjur hins opinbera 1.200,1 milljarðar króna árið 2018, eða sem nemur 43,1% af landsframleiðslu þess árs. Á sama tíma námu útgjöld hins opinbera 1.256,0 milljörðum króna, eða 42,3% af landsframleiðslu og er hlutfallið óbreytt frá fyrra ári.
Á verðlagi hvers árs jukust tekjur hins opinbera um 10,6 milljarða á árinu 2019 frá fyrra ári, eða um 0,9%, meðan útgjöld hins opinbera hækkuðu um rúma 78 milljarða króna, eða 6,6%.
Tekjur ríkissjóðs af stöðugleikaframlagi upp á 384,2 ma.kr. eru meðtaldar 2016.
Heildartekjur ríkissjóðs drógust saman um 0,9% árið 2019 samanborið við fyrra ár og námu alls 871,6 milljörðum króna. Á sama tíma jukust tekjur sveitarfélaga um 5,4% og námu alls 381,2 milljörðum króna. Heildartekjur almannatrygginga jukust mest eða um 15,3% og námu alls 289,6 milljörðum króna á árinu 2019.
Heildartekjur hins opinbera og undirgeira þess | |||||||
Verðlag hvers árs, milljarðar króna | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 1 | 2017 | 2018 | 2019 |
Hið opinbera | 795,7 | 907,0 | 931,0 | 1.418,3 | 1.138,4 | 1.200,1 | 1.210,7 |
Ríkissjóður | 584,5 | 686,1 | 692,4 | 1.149,0 | 840,9 | 879,3 | 871,6 |
Sveitarfélög | 243,6 | 254,9 | 273,6 | 308,3 | 333,4 | 361,6 | 381,2 |
Almannatryggingar | 166,8 | 168,6 | 178,8 | 200,3 | 224,4 | 251,2 | 289,6 |
Hlutfall af VLF % | |||||||
Hið opinbera | 40,6 | 43,7 | 40,6 | 56,9 | 43,5 | 43,1 | 40,8 |
Ríkissjóður | 29,8 | 33,1 | 30,2 | 46,1 | 32,2 | 31,5 | 29,3 |
Sveitarfélög | 12,4 | 12,3 | 11,9 | 12,4 | 12,7 | 13,0 | 12,8 |
Almannatryggingar | 8,5 | 8,1 | 7,8 | 8,0 | 8,6 | 9,0 | 9,8 |
1 Tekjur ríkissjóðs af stöðugleikaframlagi upp á 384,2 ma.kr. eru meðtaldar 2016.
Tekjur af sköttum á tekjur og hagnað jukust um 3,6% árið 2019
Skattar á tekjur og hagnað er stærsti tekjuliður hins opinbera og skilaði hann 42,2% af heildartekjum hins opinbera á árinu 2019. Alls námu tekjur hins opinbera af sköttum á tekjur og hagnað um 530 milljörðum króna á árinu 2019 og jukust um 3,6% frá fyrra ári. Sem hlutfall af landsframleiðslu námu skattar af tekjum og hagnaði 17,9% á síðasta ári. Á verðlagi hvers árs eru tekjur hins opinbera af sköttum á vöru og þjónustu á árinu 2019 nær óbreyttar frá fyrra ári. Skattar á vöru og þjónustu námu 27,1% af heildartekjum á árinu 2019, eða 11,5% af landsframleiðslu ársins.
Skatttekjur og tryggingagjöld hins opinbera | |||||||
Verðlag hvers árs, milljarðar króna | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 1 | 2017 | 2018 | 2019 |
Skatttekjur og tryggingagjöld | 676,1 | 774,3 | 812,0 | 1.265,6 | 982,8 | 1.037,6 | 1.063,2 |
Skattar á tekjur og hagnað | 315,6 | 360,5 | 381,0 | 429,5 | 484,0 | 511,7 | 530,2 |
Skattar á launagreiðslur | 6,5 | 7,0 | 6,6 | 7,4 | 7,9 | 8,5 | 9,1 |
Eignaskattar | 46,5 | 49,6 | 43,5 | 432,6 | 54,0 | 56,8 | 63,6 |
Skattar á vöru og þjónustu | 220,8 | 233,9 | 257,8 | 290,8 | 326,9 | 341,2 | 340,9 |
Skattar á alþjóðaviðskipti | 5,8 | 6,1 | 5,0 | 5,1 | 3,9 | 4,1 | 3,4 |
Aðrir skattar | 11,0 | 43,8 | 38,4 | 14,9 | 16,4 | 17,0 | 18,6 |
Tryggingagjöld | 69,9 | 73,4 | 79,7 | 85,4 | 89,6 | 98,2 | 97,4 |
Hlutfall af VLF | |||||||
Skatttekjur og tryggingagjöld | 34,5 | 37,3 | 35,4 | 50,8 | 37,6 | 37,2 | 35,8 |
Skattar á tekjur og hagnað | 16,1 | 17,4 | 16,6 | 17,2 | 18,5 | 18,4 | 17,9 |
Skattar á launagreiðslur | 0,3 | 0,3 | 0,3 | 0,3 | 0,3 | 0,3 | 0,3 |
Eignaskattar | 2,4 | 2,4 | 1,9 | 17,4 | 2,1 | 2,0 | 2,1 |
Skattar á vöru og þjónustu | 11,3 | 11,3 | 11,2 | 11,7 | 12,5 | 12,2 | 11,5 |
Skattar á alþjóðaviðskipti | 0,3 | 0,3 | 0,2 | 0,2 | 0,1 | 0,1 | 0,1 |
Aðrir skattar | 0,6 | 2,1 | 1,7 | 0,6 | 0,6 | 0,6 | 0,6 |
Tryggingagjöld | 3,6 | 3,5 | 3,5 | 3,4 | 3,4 | 3,5 | 3,3 |
1 Tekjur ríkissjóðs af stöðugleikaframlagi upp á 384,2 ma.kr. eru meðtaldar 2016.
Útgjöld hins opinbera jukust um 6,6% árið 2019
Útgjöld hins opinbera námu 1.256 milljörðum króna árið 2019 og jukust þau um 6,6% milli ára. Útgjöld ríkissjóðs jukust um 6,6% milli ára, útgjöld sveitarfélaga um 5,7% en mest jukust þó útgjöld almannatrygginga eða um 16,3%.
Útgjöld hins opinbera og undirgeira þess | |||||||
Í milljörðum króna | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 | 2017 | 2018 | 2019 |
Hið opinbera | 830,5 | 908,5 | 949,1 | 1.108,7 | 1.123,0 | 1.178,0 | 1.256,0 |
Ríkissjóður | 618,0 | 669,8 | 698,3 | 847,3 | 795,3 | 852,8 | 909,3 |
Sveitarfélög | 250,9 | 271,3 | 287,0 | 306,7 | 365,1 | 372,2 | 393,3 |
Almannatryggingar | 160,8 | 170,0 | 177,7 | 194,0 | 222,9 | 245,1 | 285,1 |
Hlutfall af VLF | |||||||
Hið opinbera | 42,4 | 43,8 | 41,4 | 44,5 | 42,9 | 42,3 | 42,3 |
Ríkissjóður | 31,5 | 32,3 | 30,4 | 34,0 | 30,4 | 30,6 | 30,6 |
Sveitarfélög | 12,8 | 13,1 | 12,5 | 12,3 | 14,0 | 13,4 | 13,2 |
Almannatryggingar | 8,2 | 8,2 | 7,7 | 7,8 | 8,5 | 8,8 | 9,6 |
Samneysluútgjöld hins opinbera, þ.e. launaútgjöld, kaup á vöru og þjónustu og afskriftir að frádreginni sölu á vöru og þjónustu, námu 726,7 milljörðum króna, eða 24,5% af landsframleiðslu árið 2019. Er það aukning um 8,5% á milli ára. Launakostnaðurinn vegur þyngst í samneysluútgjöldunum, eða um 59% og hækkaði hann um 7,6% frá árinu 2018.
Fjárfestingarútgjöld hins opinbera drógust saman um rúm 10% árið 2019. Ef frá eru talin áhrif gjaldfærslu vegna Hvalfjarðarganga og fjárfestingarútgjalda vegna Vaðlaheiðaganga jukust fjárfestingarútgjöld um 1% á árinu 2019 borið saman við fyrra ár. Hlutfall fjárfestingaútgjalda hins opinbera af landsframleiðslu hefur farið hækkandi undanfarin ár og mældist 3,7% á síðasta ári.
Félagslegar tilfærslur til heimila hafa aukist um tæp 18% á árinu 2019 og námu 7,5% af landsframleiðslu borið saman við 6,8% árið áður. Vegur þar þyngst mikil útgjaldaaukning hjá lífeyristryggingum og atvinnuleysistryggingasjóði.
Vaxtagjöld hins opinbera hafa lækkað umtalsvert síðustu tvö ár og frá árinu 2017 hafa þau lækkað um 24%. Vaxtagjöldin sem hlutfall af landsframleiðslu námu 2,6% á árinu 2019 samanborið við 3,9% árið 2017.
Hagræn flokkun útgjalda hins opinbera | |||||||
Hlutfall af VLF | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 | 2017 | 2018 | 2019 |
Heildarútgjöld | 42,4 | 43,8 | 41,4 | 44,5 | 42,9 | 42,3 | 42,3 |
Laun | 13,1 | 13,3 | 13,4 | 13,3 | 14,0 | 14,2 | 14,3 |
Kaup á vöru og þjónustu | 11,3 | 11,1 | 10,5 | 10,2 | 10,2 | 10,4 | 10,5 |
Vaxtagjöld | 4,4 | 4,6 | 4,4 | 3,9 | 3,9 | 2,9 | 2,6 |
Fjárframlög | 1,6 | 1,4 | 1,3 | 1,4 | 1,3 | 1,3 | 1,3 |
Framleiðslustyrkir | 0,2 | 0,2 | 0,2 | 0,2 | 0,2 | 0,2 | 0,2 |
Félagslegar tilf. til heimila | 6,8 | 6,7 | 6,2 | 5,9 | 6,5 | 6,8 | 7,5 |
Önnur tilfærsluútgjöld | 2,1 | 3,5 | 2,5 | 6,9 | 3,4 | 2,1 | 2,1 |
Fjárfesting | 2,8 | 3,0 | 2,8 | 2,7 | 3,3 | 4,4 | 3,7 |
Mikill vöxtur í fjárfestingu hins opinbera á árinu 2018 skýrist meðal annars af afhendingu Hvalfjarðarganga frá einkahlutafélaginu Speli til ríkisins.
Útgjöld til fræðslu- og heilbrigðismála í hlutfalli af landsframleiðslu hafa hækkað síðustu ár
Einn stærsti málaflokkurinn í opinberum rekstri eru heilbrigðismálin og á árinu 2019 runnu 224,1 milljarður króna til þeirra, eða sem nemur 19,0% af heildarútgjöldum hins opinbera. Útgjöld til heilbrigðismála í hlutfalli af landsframleiðslu hafa aukist á hverju ári frá árinu 2015 og námu 7,5% á árinu 2019 samanborið við 6,8% árið 2015. Heilbrigðisútgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu hafa ekki mælst hærri síðan árið 2005.
Útgjöld hins opinbera til fræðslumála námu um 203,6 milljörðum króna á árinu 2019, eða 6,9% af landsframleiðslu. Útgjöld hins opinbera til fræðslumála, sem hlutfall af landsframleiðslu hafa aukist frá árinu 2016 eftir nær samfellda lækkun frá árinu 2005 en þá nam hlutfallið 7,5%. Tæplega helmingur útgjalda hins opinbera til fræðslumála rann til grunnskólastigsins, eða sem nemur 3,3% af landsframleiðslu. Til háskólastigsins runnu 19,2% af fræðsluútgjöldum hins opinbera, eða 1,3% af landsframleiðslu. Framhaldsskólastigið tók til sín 16,4% útgjaldanna og 10,5% fóru til leikskólastigsins. Í heildina námu útgjöld til fræðslumála 17,2% af heildarútgjöldum hins opinbera á árinu 2019.
Heildarskuldir hins opinbera námu 77,7% af landsframleiðslu í lok árs 2019
Peningalegar eignir hins opinbera námu 1.613 milljörðum króna í árslok 2019, eða sem nemur 54,3% af landsframleiðslu. Heildarskuldir hins opinbera námu 2.309 milljörðum króna í lok ársins 2019, eða 77,7% af landsframleiðslu samanborið við 70,2% í árslok 2018. Aukning á heildarskuldum hins opinbera 2019 má rekja til hlutdeildar í skuldum dótturfélaga með neikvæðan eignarhlut.
Innlendar lántökur námu 15,2% af landframleiðslu 2019 samanborið við 8,5% í árslok 2018. Í árslok 2019 námu erlendar lántökur um 6,4% af landsframleiðslu.
Peningalegar eignir og skuldir hins opinbera | |||||||
Hlutfall af VLF | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 | 2017 | 2018 | 2019 |
Peningalegar eignir | 60,6 | 61,8 | 49,2 | 51,0 | 56,5 | 54,9 | 54,3 |
Skuldir | 111,1 | 109,8 | 96,0 | 85,2 | 76,7 | 70,2 | 77,7 |
Verðbréf | 43,0 | 42,3 | 38,9 | 34,0 | 28,8 | 24,4 | 22,6 |
Lántökur | 38,8 | 36,4 | 26,1 | 17,2 | 14,4 | 13,0 | 21,6 |
Innlendir lántökur | 18,2 | 16,2 | 12,7 | 9,0 | 9,9 | 8,5 | 15,2 |
Erlendir lántökur | 20,5 | 20,2 | 13,4 | 8,2 | 4,5 | 4,5 | 6,4 |
Lífeyrisskuldbindingar | 23,3 | 23,6 | 25,3 | 27,8 | 27,1 | 26,7 | 27,6 |
Viðskiptaskuldir | 6,0 | 7,4 | 5,7 | 6,1 | 6,3 | 6,1 | 5,9 |
Hrein peningaleg eign | -50,5 | -48,1 | -46,8 | -34,2 | -20,2 | -15,3 | -23,5 |
Fyrirhuguð endurskoðun tímaraða og breytingar á viðmiðunarári fasts verðlags
Endurskoðun tímaraða sem fyrirhuguð var í tengslum við birtingu talnaefnis fyrir 2. ársfjórðung hefur verið frestað tímabundið og er gert ráð fyrir birtingu niðurstaðna samhliða útgáfu talnaefnis fyrir 3. ársfjórðung þann 14. desember n.k. Við endurskoðun verður sérstök áhersla lögð á flokkun hageininga (sector classification) í samræmi við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn ESA 2010 og eru nú meðal annars nokkur álitaefni til skoðunar er snúa að afmörkun hins opinbera (general government sector) í íslenskum þjóðhagsreikningum. Í öllum tilvikum er um að ræða endurflokkun stofnana sem hingað til hafa verið flokkaðar utan hins opinbera.
Við endurflokkun stofnana hins opinbera hefur í veigameiri álitaefnum verið leitað eftir formlegu áliti hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Nú þegar liggja fyrir álit varðandi flokkun Íbúðalánasjóðs og þeirra stofnana og sjóða sem tóku við hlutverki hans með lagabreytingum um síðustu áramót, sem og flokkun Lánasjóðs íslenskra námsmanna (nú Menntasjóður námsmanna) og meðferð íslenskra námslána í þjóðhagsreikningum. Í báðum tilvikum er niðurstaðan sú að endurflokka eigi stofnanirnar og þær eigi að teljast sem hluti af hinu opinbera. Álitsgerðirnar hafa verið birtar opinberlega á vefsvæði Eurostat. Þá stendur einnig yfir vinna við endurskoðun aðferða við staðvirðingu samneyslu. Samhliða heildarendurskoðun tímaraða verður skipt um viðmiðunarár fasts verðlags og tölur birtar á föstu verðlagi 2015 í stað 2005 eins og verið hefur frá árinu 2011.