Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 254 milljarða króna árið 2020, eða sem nemur 8,6% af vergri landsframleiðslu ársins (VLF). Til samanburðar var afkoman neikvæð um 46,4 milljarða króna árið 2019, eða 1,5% af VLF. Afkoma hins opinbera hefur ekki verið verri síðan 2008 en kórónuveirufaraldurinn (COVID-19) hefur haft umtalsverð áhrif á tekjur og gjöld hins opinbera. Á verðlagi hvers árs drógust tekjur hins opinbera saman um 42,3 milljarða frá fyrra ári, eða um 3,3%, meðan útgjöld hins opinbera jukust um 165,4 milljarða króna, eða 12,5%.

Hafa þarf í huga við samanburð á fjárhæðum í hlutfalli af VLF að landsframleiðsla dróst saman að raungildi um 6,5% á árinu 2020.

2016: Tekjur ríkissjóðs: 384,2 ma.kr. vegna stöðugleikaframlags. Gjöld ríkissjóðs:105,1 ma.kr. vegna tilfærslu til A-hluta LSR.
2017: Gjöld sveitarfélaga: Fjármagnstilfærsla til Brúar lífeyrissjóðs upp á 32 ma.kr.

Tekjur hins opinbera námu 1.231,6 milljörðum króna árið 2020, eða sem nemur 41,9% af VLF. Til samanburðar mældust tekjur hins opinbera 1.273,9 milljarðar króna árið 2019, eða sem nemur 41,8% af landsframleiðslu þess árs.

Heildartekjur ríkissjóðs drógust saman um 7% árið 2020 samanborið við fyrra ár og námu alls 867,1 milljarði króna. Á sama tíma jukust tekjur sveitarfélaga um 5,4% og námu alls 404,8 milljörðum króna. Heildartekjur almannatrygginga jukust mest eða um 23,7% og námu alls 358,1 milljarði króna á árinu 2020. Almannatryggingar eru fjármagnaðar með tilfærslum frá ríkissjóði.

Skattar á tekjur og hagnað er stærsti tekjuliður hins opinbera og skilaði hann 43,9% af heildartekjum hins opinbera á árinu 2020. Alls námu tekjur hins opinbera af tekjuliðnum 540,9 milljörðum króna á árinu 2020 og jukust um 2% frá fyrra ári. Tekjur hins opinbera af sköttum á vöru og þjónustu drógust saman um 3,3% milli ára. Skattar á vöru og þjónustu námu 333,4 milljörðum króna á árinu eða sem nemur 27,1% af heildartekjum hins opinbera. Í heildina var lítil breyting frá 2019 á skatttekjum hins opinbera.

Útgjöld hins opinbera námu 1.485,6 milljörðum króna árið 2020 og jukust þau um 12,5% milli ára. Útgjöld ríkissjóðs jukust um 14,3% milli ára, útgjöld sveitarfélaga um 7,3% en mest jukust þó útgjöld almannatrygginga eða um 22,3%.

Samneysluútgjöld hins opinbera, þ.e. launaútgjöld, kaup á vöru og þjónustu og afskriftir að frádreginni sölu á vöru og þjónustu, námu 818,9 milljörðum króna, eða 27,8% af landsframleiðslu árið 2020. Er það aukning um 10,1% á milli ára. Launakostnaðurinn vegur þyngst í samneysluútgjöldunum, eða um 58% og hækkaði hann um 9,2% frá árinu 2019.

Mikill vöxtur í fjárfestingu hins opinbera á árinu 2018 skýrist meðal annars af afhendingu Hvalfjarðarganga frá einkahlutafélaginu Speli til ríkisins.

Fjárfestingarútgjöld hins opinbera á verðlagi hvers árs drógust lítillega saman eða um 0,4% árið 2020 og námu tæpum 110 milljörðum króna. Útgjöld ríkissjóðs til fjárfestinga jukust um 6,7% en útgjöld sveitarfélaga í þennan málaflokk drógust saman um rúm 11%.

Á verðlagi hvers árs hafa vaxtagjöld hins opinbera farið lækkandi frá árinu 2015 og í hlutfalli af VLF frá árinu 2012. Vaxtagjöld hins opinbera sem hlutfall af VLF námu 4% á árinu 2020 samanborið við 8,9% árið 2012.

Áhrif kórónuveirufaraldursins á fjármál hins opinbera
Aðgerðir stjórnvalda til að lágmarka neikvæð áhrif af kórónuveirufaraldrinum á stöðu efnahagsmála hefur haft mikil áhrif á fjármál hins opinbera.

Félagslegar tilfærslur til heimila jukust um rúm 32,8% á árinu 2020 og námu 295,2 milljörðum króna samanborið við 222,3 milljörðum króna árið áður. Vegur þar þyngst mikil útgjaldaaukning hjá Atvinnuleysistryggingasjóði en útgjöld vegna atvinnuleysisbóta hækkuðu um 141% milli ára eða úr 22,6 milljörðum króna árið 2019 í 54,4 milljarða króna árið 2020. Útgjöld vegna greiðslu hlutabóta námu til viðbótar um 28 milljörðum króna.

Önnur tilfærsluútgjöld jukust um 47% á árinu 2020 frá fyrra ári. Þar vega þyngst svokallaðir viðspyrnustyrkir sem námu tæpum 10 milljörðum króna á árinu 2020.

Leiðrétt hefur verið fyrir óreglulegum liðum á árinu 2016, þ.e. 384,2 milljarða króna stöðugleikaframlagi frá slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja og gjaldfærslu upp á 105,1 milljarð króna vegna fjármagnstilfærslu ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Útgjöld hins opinbera eftir málaflokkum
Stærsti málaflokkurinn í opinberum rekstri er félagsvernd, almannatryggingar og velferðarmál. Runnu 407,3 milljarðar króna til málaflokksins á árinu 2020, sem nemur tæpum 29% af heildarútgjöldum hins opinbera á árinu 2020. Útgjöld til félagsverndar hafa farið vaxandi undanfarin ár og jukust um 26,2% á árinu 2020 í samanburði við árið 2019.

Annar stærsti málaflokkurinn í opinberum rekstri eru heilbrigðismálin, og námu þau 17,1% af heildarútgjöldum hins opinbera á árinu 2020. Alls rann 241,1 milljarður króna til heilbrigðismála á árinu, eða sem nemur 8,2% af landsframleiðslu ársins. Er það útgjaldaaukning um 7,6% frá fyrra ári á verðlagi ársins, sem er heldur minni aukning en var áætluð í bráðabirgðaútgáfu fjármála hins opinbera í mars síðastliðnum.

Útgjöld hins opinbera til fræðslumála námu um 208,9 milljörðum króna á árinu 2020, eða sem nemur 14,8% af heildarútgjöldum hins opinbera. Útgjöld hins opinbera til fræðslumála, sem hlutfall af landsframleiðslu nam 7,1% árið 2020. Tæplega helmingur útgjalda hins opinbera til fræðslumála rann til grunnskólastigsins. Til háskólastigsins runnu 15,8% af fræðsluútgjöldum hins opinbera, 17,1% til framhaldsskólastigsins og 11,1% til leikskólastigsins.

Heildarskuldir hins opinbera námu 113,5% af VLF í lok árs 2020
Peningalegar eignir hins opinbera námu 2.406 milljörðum króna í árslok 2020, eða sem nemur 81,8% af VLF. Heildarskuldir hins opinbera námu 3.338 milljörðum króna í lok ársins 2020, eða 113,5% af VLF samanborið við 98,7% í árslok 2019. Lántökur hins opinbera námu 21% af VLF 2020 og var hluti innlendrar lántöku 12,2% og erlendar lántökur námu um 8,7% af VLF.

Talnaefni