Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 258 milljarða króna árið 2021 eða sem nemur 7,9% af vergri landsframleiðslu ársins (VLF). Til samanburðar var afkoman neikvæð um 262 milljarða króna árið 2020 eða 8,9% af VLF. Á verðlagi hvers árs jukust tekjur hins opinbera um 111 milljarða frá fyrra ári, eða um 9%, meðan útgjöld hins opinbera jukust um 107 milljarða króna eða um 7,2%.
Hafa þarf í huga að við samanburð á fjárhæðum í hlutfalli af VLF dróst landsframleiðslan saman að raungildi um 6,8% á árinu 2020.
Tekjur hins opinbera námu 41,3% af VLF
Tekjur hins opinbera námu 1.342,5 milljörðum króna árið 2021, eða sem nemur 41,3% af VLF. Til samanburðar mældust tekjur hins opinbera 1.231,5 milljarðar króna árið 2020 eða sem nemur 41,9% af landsframleiðslu þess árs.
Heildartekjur ríkissjóðs jukust um 9,6% árið 2021 samanborið við fyrra ár og námu alls 949,7 milljörðum króna. Á sama tíma jukust tekjur sveitarfélaga um 6,9% og námu alls 432,7 milljörðum króna. Heildartekjur almannatrygginga jukust um 7,5% og námu alls 385 milljörðum króna á árinu 2021. Almannatryggingar eru fjármagnaðar með tilfærslum frá ríkissjóði.
Skattar á tekjur og hagnað er stærsti tekjuliður hins opinbera og skilaði hann 42,4% af heildartekjum hins opinbera á árinu 2021. Alls námu tekjur hins opinbera af tekjuliðnum 569,4 milljörðum króna á árinu 2021 og jukust um 5,1% frá fyrra ári. Tekjur hins opinbera af sköttum á vöru og þjónustu jukust um 13,6% á milli ára. Skattar á vöru og þjónustu námu 378,6 milljörðum króna á árinu eða sem nemur 28,2% af heildartekjum hins opinbera. Í heildina jukust skatttekjur hins opinbera um 7,2% á árinu 2021 sem er mikil aukning frá fyrra ári þegar þær jukust um 0,8% á milli ára.
Útgjöld hins opinbera námu 49,2% af VLF
Útgjöld hins opinbera námu 1.600,7 milljörðum króna árið 2021, eða sem nemur um 49,2% af VLF, og jukust þau um 7,2% milli ára. Til samanburðar jukust útgjöld hins opinbera um 13,3% á árinu 2020. Útgjöld ríkissjóðs jukust um 6,3% á milli ára, útgjöld sveitarfélaga um 8,4% og útgjöld almannatrygginga um 7,8%.
Samneysluútgjöld hins opinbera, þ.e. launaútgjöld, kaup á vöru og þjónustu og afskriftir að frádreginni sölu á vöru og þjónustu, námu 892,5 milljörðum króna, eða sem nam 27,5% af landsframleiðslu, árið 2021. Er það aukning um 9% á milli ára. Launakostnaðurinn vegur þyngst í samneysluútgjöldunum, eða um 57%, og hækkaði hann um 8,1% frá árinu 2020.
Fjárfestingarútgjöld hins opinbera á verðlagi hvers árs jukust umtalsvert, eða um 26,3% árið 2021, og námu 143,4 milljörðum króna. Útgjöld ríkissjóðs til fjárfestinga jukust mest eða um 27,4% en útgjöld sveitarfélaga í þennan málaflokk hækkuðu líka töluvert eða um 23,4%.
Á verðlagi hvers árs hafa vaxtagjöld hins opinbera farið lækkandi frá árinu 2015 og í hlutfalli af VLF frá árinu 2012. Vaxtagjöld hins opinbera, sem hlutfall af VLF, námu 3,4% á árinu 2021 samanborið við 8,9% árið 2012.
Félagslegar tilfærslur til heimila jukust um 4% á árinu 2021 samanborið við 32,5% aukningu árið áður en atvinnuleysistryggingasjóður vegur þungt í félagslegum tilfærslum.
Útgjöld hins opinbera eftir málaflokkum
Stærsti málaflokkurinn í opinberum rekstri er félagsvernd, almannatryggingar og velferðarmál. Runnu 430,2 milljarðar króna til málaflokksins á árinu 2021, sem nemur 28,4% af hreinum útgjöldum hins opinbera á árinu 2021.
Annar stærsti málaflokkurinn í opinberum rekstri eru heilbrigðismálin og námu þau 18,3% af hreinum útgjöldum hins opinbera á árinu 2021. Alls runnu 277,6 milljarðar króna til heilbrigðismála á árinu eða sem nemur 8,5% af landsframleiðslu ársins. Er það útgjaldaaukning um 14,7% frá fyrra ári á verðlagi ársins.
Útgjöld hins opinbera til fræðslumála námu um 232,9 milljörðum króna á árinu 2021 eða sem nemur 15,4% af hreinum útgjöldum hins opinbera. Útgjöld hins opinbera til fræðslumála, sem hlutfall af landsframleiðslu, nam 7,2% árið 2021. Tæplega helmingur útgjalda hins opinbera til fræðslumála rann til grunnskólastigsins. Til háskólastigsins runnu 18,9% af fræðsluútgjöldum hins opinbera, 14,9% til framhaldsskólastigsins og 11,5% til leikskólastigsins.
Heildarskuldir hins opinbera námu 110,3% af VLF í lok árs 2021
Peningalegar eignir hins opinbera námu 2.435 milljörðum króna í árslok 2021 eða sem nemur 74,9% af VLF samanborið við 81,9% í árslok 2020. Heildarskuldir hins opinbera námu 3.585,9 milljörðum króna í lok ársins 2021 eða 110,3% af VLF. Til samanburðar námu heildarskuldir hins opinbera 3.338 milljörðum árið 2020 eða 113,6% af VLF.
Lánaskuldir hins opinbera námu 734 milljörðum árið 2021, eða 22,6% af VLF. Þar af var hluti innlendra lánaskulda 11,6% af VLF og erlendra lánaskulda um 11% af VLF. Til samanburðar námu lánaskuldir hins opinbera 617 milljörðum árið 2020 eða 21% af VLF.