FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 21. MARS 2023

Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 161,8 milljarða króna árið 2022 samkvæmt bráðabirgðatölum eða sem nemur 4,3% af vergri landsframleiðslu ársins (VLF). Til samanburðar var afkoman árið 2021 neikvæð um 8,4% af VLF eða um 272,2 milljarða króna.

Áætlað er að heildartekjur hins opinbera á verðlagi hvers árs hafi aukist um 17,3% á milli áranna 2021 og 2022 og að heildarútgjöld hins opinbera hafi aukist um 7,5% á sama tíma.

Afkoma hins opinbera ásamt tölum um eignir og skuldir eru áætlaðar út frá bráðabirgðatölum. Niðurstöður munu taka breytingum þegar endanlegt uppgjör liggur fyrir í útgáfu í september 2023.

Afkoma hins opinbera neikvæð á fjórða ársfjórðungi 2022
Áætlað er að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um 44,9 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2022 eða sem nemur 4,7 % af VLF ársfjórðungsins. Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi aukist um 19% á fjórða ársfjórðungi borið saman við sama tímabil fyrra árs. Á sama tímabili er áætlað að heildarútgjöld hins opinbera hafi aukist um 8,0%.

Tekjur hins opinbera 41,8% af VLF
Tekjur hins opinbera eru áætlaðar 1.574,2 milljarðar króna árið 2022 eða sem nemur 41,8% af VLF. Til samanburðar mældust tekjur hins opinbera 1.342,5 milljarður króna árið 2021 eða 41,4% af VLF þess árs. Á verðlagi hvers árs jukust þar með tekjur hins opinbera um 231,7 milljarða á árinu 2022, borið saman við fyrra ár, eða um 17,3%.

Heildartekjur ríkissjóðs árið 2022 eru áætlaðar 1.142,6 milljarðar króna og að þær hafi aukist um 20,3% frá árinu 2021. Tekjur sveitarfélaga eru áætlaðar 475,9 milljarðar króna sem er um 10% aukning frá fyrra ári. Heildartekjur almannatrygginga drógust saman um 3,6% á tímabilinu og eru áætlaðar alls 370 milljarðar króna á árinu 2022. Rétt er að benda á að 99,5% tekna almannatrygginga renna úr ríkissjóði. Hjá ríkissjóði eru framlögin gjaldfærð undir fjárframlög til opinberra aðila. Þegar tekjur og gjöld hins opinbera eru tekin saman er framlögum á milli opinberra aðila eytt út til þess að koma í veg fyrir ofmat á tekjum og gjöldum.

Uppgjör hins opinbera í meðferð Hagstofu Íslands er unnið samkvæmt þjóðhagsreikningakerfi Evrópusambandsins og er meðferð á sölu eigna og tekjur af hlutdeildarfélögum og samrekstri frábrugðin uppgjöri Ríkisreiknings og sveitarfélaga. Í uppgjöri Hagstofunnar eru tekjur af sölu eigna, hlutdeild af tekjum og virðisbreytingum eigna eingöngu færðar um efnahagsreikning. Eingöngu eru tekjufærðar tekjur af fyrirtækjum í eigu hins opinbera í formi arðgreiðslna að hámarki sem nemur hagnaði fyrra árs.

Útgjöld hins opinbera 46,1% af VLF
Útgjöld hins opinbera eru áætluð 1.736 milljarðar króna árið 2022 eða sem nemur 46,1% af VLF. Til samanburðar námu útgjöldin 1.614,7 milljörðum króna árið 2021 eða 49,8% af VLF þess árs. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð 1.274,7 milljarðar króna árið 2022 sem er aukning um 6,6% frá fyrra ári. Áætluð útgjöld sveitarfélaga nema 519 milljarðar króna á árinu 2022 og nemur aukningin 10,9% frá fyrra ári.

Samneysluútgjöld hins opinbera, þ.e. launaútgjöld, kaup á vöru og þjónustu og afskriftir að frádreginni sölu á vöru og þjónustu, námu 975,7 milljörðum króna eða 25,9% af VLF árið 2022. Er það aukning um 8,8% á milli ára. Áætlað er að launakostnaður hafi aukist um 7,8% frá árinu 2021.

Áætluð fjárfestingarútgjöld hins opinbera námu 153,9 milljörðum króna 2022 eða sem nemur 4,1% af VLF ársins. Sem hlutfall af VLF ársins hefur fjárfesting hins opinbera aukist síðustu ár og á verðlagi ársins er áætlað að fjárfesting hins opinbera hafi aukist um 12,3 milljarða króna á milli áranna 2021 og 2022.

Bráðabirgðatölur ársins 2022 benda til þess að félagslegar tilfærslur til heimila hafi numið 284 milljörðum króna sem er lækkun um 7,3% frá 2021. Á árinu 2021 jukust útgjöld hins opinbera vegna félagslegra tilfærslna um 4% frá fyrra ári.

Áætluð vaxtagjöld hins opinbera námu 173,6 milljörðum króna og sem hlutfall af VLF námu þau 4,6% á árinu 2022 sem er aukning um 50,6 milljarða króna frá árinu 2021.

Áætlað er að heilbrigðisútgjöld hins opinbera hafi numið 282,2 milljörðum króna á árinu 2022 eða 17,2% af hreinum heildarútgjöldum hins opinbera. Er það aukning um 1,7% frá fyrra ári eða sem nemur um 4,6 milljörðum króna.

Útgjöld hins opinbera til fræðslumála eru áætluð 248,4 milljarðar króna 2022 eða 15,1% af hreinum heildarútgjöldum hins opinbera. Á verðlagi hvers árs er það aukning um 15,4 milljarða frá árinu 2021 eða 6,6%.

Heildarskuldir hins opinbera námu 101,1% af VLF í lok árs 2022
Hrein peningaleg eign hins opinbera er áætluð neikvæð um 1.367,6 milljarð króna í árslok 2022 eða sem nemur 36,3% af VLF ársins. Til samanburðar var hrein peningaleg eign hins opinbera neikvæð um 1.150,8 milljarða árið 2021 eða 35,5% af VLF þess árs.

Peningalegar eignir hins opinbera námu 2.440,3 milljörðum króna í árslok 2022 eða 64,7% af VLF. Heildarskuldir hins opinbera hækkuðu á milli ára og námu samkvæmt áætlun 3.807,9 milljarðar króna í lok ársins 2022 eða 101,1% af VLF. Til samanburðar námu heildarskuldir hins opinbera 3.585,9 milljörðum árið 2021 eða 110,5% af VLF þess árs.

Peningaleg eign ríkissjóðs er áætluð 2.265,9 milljarðar króna á árinu 2022 sem er aukning um 0,2% frá fyrra ári. Heildarskuldir ríkissjóðs eru áætlaðar 3.312,9 milljarðar króna á árinu 2022 og nemur hækkunin 169,8 milljörðum króna frá fyrra ári eða 5,4%. Áætlaðar skuldir sveitarfélaga eru 502,2 milljarður króna árið 2022 og hækka um rúma 51,8 milljarða króna á milli ára.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang opinberfjarmal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.