FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 12. SEPTEMBER 2024

Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 85,9 milljarða króna árið 2023 eða sem nemur 2,0% af vergri landsframleiðslu ársins (VLF). Til samanburðar var afkoman neikvæð um 155,0 milljarða króna árið 2022 eða 4,0% af VLF. Á verðlagi hvers árs jukust tekjur hins opinbera um 223,2 milljarða frá fyrra ári, eða 13,5%, á meðan útgjöld hins opinbera jukust um 154,0 milljarða króna eða 8,5%.

Tekjur hins opinbera námu 43,5% af VLF
Tekjur hins opinbera námu 1.880,4 milljörðum króna árið 2023 eða sem nemur 43,5% af VLF. Til samanburðar mældust tekjur hins opinbera 1.657,2 milljarðar króna árið 2022 eða 42,6% af landsframleiðslu þess árs.

Heildartekjur ríkissjóðs jukust um 13,5% milli ára og námu alls 1.380,2 milljörðum króna. Á sama tíma jukust tekjur sveitarfélaga um 13,7% og námu alls 556,3 milljörðum króna. Almannatryggingar eru fjármagnaðar með tilfærslum frá ríkissjóði.

Skattar á tekjur og hagnað er stærsti tekjuliður hins opinbera og skilaði hann 43,8% af heildartekjum hins opinbera á árinu 2023. Alls námu tekjur hins opinbera af sköttum á tekjur og hagnað 822,8 milljörðum króna og jukust þær um 16,5% frá fyrra ári. Tekjur hins opinbera af sköttum á vöru og þjónustu jukust um 12,6% og námu 496,1 milljarði króna eða sem nemur 26,4% af heildartekjum hins opinbera. Í heildina jukust skatttekjur hins opinbera um 14,8% á árinu 2023.

Uppgjör hins opinbera í meðferð Hagstofu Íslands er unnið samkvæmt þjóðhagsreikningakerfi Evrópusambandsins og er meðferð á sölu eigna og tekjur af hlutdeildarfélögum og samrekstri frábrugðin uppgjöri Ríkisreiknings og sveitarfélaga. Í uppgjöri Hagstofunnar eru tekjur af sölu eigna, hlutdeild af tekjum og virðisbreyting eigna færðar um efnahagsreikning. Eingöngu eru tekjufærðar tekjur af fyrirtækjum í eigu hins opinbera í formi arðgreiðslna að hámarki sem nemur hagnaði fyrra árs.

Útgjöld hins opinbera námu 45,5% af VLF
Útgjöld hins opinbera námu 1.966,2 milljörðum króna árið 2023 eða sem nemur um 45,5% af VLF. Til samanburðar voru útgjöld hins opinbera 1812,2 milljarðar króna árið 2022 eða 46,6% af VLF. Útgjöld ríkissjóðs jukust um 7,4% á milli ára, útgjöld sveitarfélaga um 9,5% og útgjöld almannatrygginga um 5,4%.

Hrein útgjöld hins opinbera, þegar tekjur vegna sölu á vöru og þjónustu hafa verið dregnar frá, námu 1.855,5 milljörðum króna árið 2023. Meirihluti útgjalda hins opinbera rennur til samneyslu, þ.e. launaútgjöld, kaup á vörum og þjónustu og afskriftir að frádreginni sölu á vörum og þjónustu eða sem nemur 58,5% af hreinum gjöldum. Samneysluútgjöld hins opinbera námu 1.084,6 milljörðum króna á árinu 2023 sem er aukning um 8,8% á milli ára.

Félagslegar tilfærslur til heimila námu 15,8% af hreinum útgjöldum hins opinbera á árinu 2023 eða 293,7 milljörðum króna og jukust þær um 3,5% á verðlagi hvers árs. Framleiðslustyrkir, fjárframlög og aðrar tilfærslur námu 9,0% af hreinum útgjöldum hins opinbera. Var töluverð aukning í öðrum tilfærslum á milli ára en þar undir falla meðal annars úrræði og útgjöld vegna náttúruhamfara.

Fjárfesting hins opinbera á verðlagi hvers árs hækkaði um 9,8% á milli ára og námu 176,1 milljarði króna árið 2023. Þegar tekið hefur verið tillit til afskrifta var hrein fjárfesting hins opinbera 77,6 milljarðar króna á árinu 2023 eða sem nemur 4,2% af hreinum útgjöldum hins opinbera.

Vaxtagjöld námu 12,5% af hreinum útgjöldum hins opinbera eða 232,2 milljörðum króna árið 2023 sem er um 4,0% aukning á milli ára. Vert er að hafa í huga að afmörkun hins opinbera í þjóðhagsreikningum og í talnaefni um fjármál hins opinbera miðast við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn (ESA2010). Með hinu opinbera teljast meðal annars lánasjóðir ríkissjóðs sem hafa veruleg áhrif á vaxtatekjur og gjöld þess.

Útgjöld hins opinbera eftir málaflokkum
Stærsti málaflokkurinn í opinberum rekstri, með 24,5% af hreinum útgjöldum hins opinbera, er félagsvernd. Runnu 454,2 milljarðar króna til málaflokksins á árinu 2023 eða sem nemur 10,5% af VLF ársins.

Annar stærsti málaflokkurinn í opinberum rekstri eru heilbrigðismálin og námu þau 18,2% af hreinum útgjöldum hins opinbera á árinu 2023, sem nemur 338,2 milljörðum króna eða 7,8% af VLF ársins.

Útgjöld hins opinbera til fræðslumála námu um 266,4 milljörðum króna á árinu 2023, sem nemur 14.4% af hreinum útgjöldum hins opinbera eða 6,2% af VLF ársins. Rúmlega helmingur útgjalda hins opinbera til fræðslumála rann til grunnskólastigsins. Til háskólastigsins runnu 17,1% af fræðsluútgjöldum hins opinbera, 14,3% til framhaldsskólastigsins og 12,2% til leikskólastigsins.

Heildarskuldir hins opinbera námu 94,4% af VLF í lok árs 2023
Hrein peningaleg eign hins opinbera var neikvæð um 1.552,6 milljarða króna í lok árs 2023. Þar af námu heildarskuldir hins opinbera 4.079,5 milljörðum króna í lok ársins 2023 eða 94,4% af VLF. Heildarskuldir hins opinbera á verðlagi hvers árs hafa aukist en dregið lítillega saman sem hlutfall af VLF. Peningalegar eignir hins opinbera námu 2.526,9 milljörðum króna í lok árs 2023 eða sem nemur 58,5% af VLF.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang opinberfjarmal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.