Tekjujöfnuður hins opinbera var neikvæður um 160,8 milljarða króna árið 2024 samkvæmt bráðabirgðatölum eða sem nemur 3,5% af vergri landsframleiðslu ársins (VLF). Til samanburðar var afkoman árið 2023 neikvæð um 2,3% af VLF eða 99,5 milljarða króna.
Áætlað er að heildartekjur hins opinbera á verðlagi hvers árs hafi aukist um 5,8% á milli áranna 2023 og 2024 en heildarútgjöld hins opinbera hafi aukist um 8,6%.
Afkoma hins opinbera ásamt tölum um eignir og skuldir eru áætlaðar út frá bráðabirgðatölum. Niðurstöður munu taka breytingum þegar uppgjör liggur fyrir í september 2025.
42 milljarða króna halli á fjórða ársfjórðungi 2024
Áætlað er að tekjujöfnuður hins opinbera hafi verið neikvæður um 42,2 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2024 eða sem nemur 3,6% af VLF ársfjórðungsins. Til samanburðar var 65,2 milljarða króna halli hjá hinu opinbera á fjórða ársfjórðungi 2023. Áætlað er að tekjur hins opinbera hafi aukist um 7,1% og heildarútgjöld um 2,1% á tímabilinu.
Tekjur hins opinbera 42,8% af VLF
Tekjur hins opinbera eru áætlaðar 1.974,4 milljarðar króna árið 2024 eða sem nemur 42,8% af VLF. Til samanburðar mældust tekjur hins opinbera 1.866,8 milljarður króna árið 2023 eða 43,0% af VLF þess árs. Á verðlagi hvers árs jukust þar með tekjur hins opinbera um 107,7 milljarða á árinu 2024, borið saman við fyrra ár, eða 5,8%.
Í bráðabirgðatölum fyrir 2024 hefur Fjársýslan fært 14 milljarða til lækkunar á skatttekjum einstaklinga. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Hagstofan hefur fengið er skýringin sú að tekjur sem innheimtust á árinu 2024 vegna 2023 reyndust minni en gert var ráð fyrir í Ríkisreikningi fyrir 2023. Hagstofan færir þennan samdrátt á skatttekjum á viðeigandi uppgjörsári og hafa tölur fyrir 2023 því verið endurskoðaðar.
Áætlað er að heildartekjur ríkissjóðs hafi aukist um 4,9% frá fyrra ári og að þær nemi 1.432,9 milljörðum króna árið 2024. Tekjur sveitarfélaga eru áætlaðar 610,4 milljarðar króna sem er 9,6% aukning frá fyrra ári. Heildartekjur almannatrygginga jukust um 8,2% á tímabilinu og eru áætlaðar alls 411,6 milljarðar króna á árinu 2024. Rétt er að benda á að 99,2% tekna almannatrygginga renna úr ríkissjóði. Hjá ríkissjóði eru framlögin gjaldfærð undir fjárframlög til opinberra aðila. Þegar tekjur og gjöld hins opinbera eru tekin saman er framlögum á milli opinberra aðila eytt út til þess að koma í veg fyrir ofmat á tekjum og gjöldum.
Uppgjör hins opinbera í meðferð Hagstofunnar er unnið samkvæmt þjóðhagsreikningakerfi Evrópusambandsins og er meðferð á sölu eigna og tekjur af hlutdeildarfélögum og samrekstri frábrugðin uppgjöri Ríkisreiknings og sveitarfélaga. Í uppgjöri Hagstofunnar eru tekjur af sölu eigna, hlutdeild af tekjum og virðisbreytingu eigna færðar um efnahagsreikning. Eingöngu eru tekjufærðar tekjur af fyrirtækjum í eigu hins opinbera í formi arðgreiðsla.
Útgjöld hins opinbera 46,3% af VLF
Útgjöld hins opinbera eru áætluð 2.135,3 milljarðar króna árið 2024 eða sem nemur 46,3% af VLF. Til samanburðar námu útgjöldin 1.966,2 milljörðum króna árið 2023 eða 45,3% af VLF þess árs. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð 1.572,6 milljarðar króna árið 2024 sem er aukning um 9,8% frá fyrra ári. Áætluð útgjöld sveitarfélaga nema 633,9 milljörðum króna á árinu 2024 og nemur aukningin 6,5% frá fyrra ári.
Útgjöld vegna úrræða sem hið opinbera hefur gripið til vegna jarðhræringa og eldgosa við Grindavík vega þungt í útgjaldaaukningu hins opinbera árið 2024. Í hagrænni flokkun eru þau úrræði færð undir tilfærsluútgjöld önnur en fjárframlög að undanskildum varnargörðum sem eru færðir undir fjárfestingu sveitarfélaganna.
Samneysluútgjöld hins opinbera, þ.e. launaútgjöld, kaup á vöru og þjónustu og afskriftir að frádreginni sölu á vöru og þjónustu, hafa aukist um 8,4% á milli ára og eru áætluð 1.176,3 milljarðar króna árið 2024 eða sem nemur 25,5% af VLF. Þegar tekið er tillit til verðlagsbreytinga gefur það magnbreytingu samneyslu upp á 2,5%.
Áætluð fjárfestingarútgjöld hins opinbera námu 182,5 milljörðum króna árið 2024 eða sem nemur 4,0% af VLF ársins. Er það 3,8% aukning frá fyrra ári.
Útgjöld vegna félagslegra tilfærsla til heimila hafa aukist um 10,4% milli ára og nema 324,3 milljarða á árinu 2024 eða 7,0% af VLF. Áætlað er að vaxtagjöld hins opinbera hafi dregist saman um 19,6% frá fyrra ári og hafi numið 186,6 milljörðum á árinu 2024, sem nemur 4,0% af VLF.
Vert er að hafa í huga að afmörkun hins opinbera í þjóðhagsreikningum og í talnaefni um fjármál hins opinbera miðast við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn (ESA2010). Með hinu opinbera teljast meðal annars lánasjóðir ríkissjóðs sem hafa veruleg áhrif á vaxtatekjur og gjöld þess. Í greinargerð sem gefin var út 30. nóvember 2020 og aðgengileg er á vef Hagstofunnar er fjallað sérstaklega um aðferðafræðilegan grundvöll geiraflokkunar og úrlausn álitamála er snúa að flokkun fyrirtækja og stofnana í eigu ríkisins.
Heildarskuldir hins opinbera námu 94,1% af VLF í lok árs 2024
Hrein peningaleg eign hins opinbera er áætluð neikvæð um 1.731,9 milljarða króna í árslok 2024 eða sem nemur 37,5% af VLF ársins. Til samanburðar var hrein peningaleg eign hins opinbera neikvæð um 1.552,6 milljarða árið 2023 eða 35,8% af VLF þess árs.
Peningalegar eignir hins opinbera eru áætlaðar 56,6% af VLF í árslok 2024 eða sem nemur 2.613,5 milljörðum króna, sem er aukning um 3,4% frá fyrra ári. Heildarskuldir hins opinbera hækkuðu um 6,5% á milli ára og eru áætlaðar 4.345,4 milljarðar króna í lok ársins 2024 eða 94,1% af VLF. Til samanburðar námu heildarskuldir hins opinbera 4.079,5 milljörðum árið 2023 eða 94,0% af VLF þess árs.
Heildarskuldir ríkissjóðs eru áætlaðar 3.748,6 milljarðar króna í lok árs 2024 eða 81,2% af VLF ársins. Áætlaðar skuldir sveitarfélaga eru 606,3 milljarðar króna í lok árs 2024 eða 13,1% af VLF.