Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 169,9 milljarða króna árið 2024 eða sem nemur 3,7% af vergri landsframleiðslu ársins (VLF). Til samanburðar var afkoman neikvæð um 101,2 milljarða króna árið 2023 eða 2,3% af VLF. Á verðlagi hvers árs jukust tekjur hins opinbera um 113,6 milljarða frá fyrra ári, eða 6,1%, á meðan útgjöld hins opinbera jukust um 182,3 milljarða króna eða 9,2%.
Viðbrögð við náttúruhamförum vega þungt í útgjaldaaukningu hins opinbera og neikvæðri afkomu á árinu 2024. Bein útgjöld vegna úrræða sem hið opinbera greip til vegna jarðhræringa og eldgosa við Grindavík numu yfir 87 milljörðum króna á árinu. Þar er meðtalið uppkaup Þórkötlu á fasteignum í Grindavík og uppbygging varnargarða ásamt húsnæðis- og vinnumarkaðsstuðningi vegna náttúruvár.
Tekjur hins opinbera námu 43,3% af VLF
Tekjur hins opinbera námu 1.988,6 milljörðum króna árið 2024 eða sem nemur 43,3% af VLF. Til samanburðar mældust tekjur hins opinbera 1.874,9 milljarðar króna árið 2023 eða 42,9% af landsframleiðslu þess árs.
Heildartekjur ríkissjóðs jukust um 5,0% á milli ára og námu alls 1.434,5 milljörðum króna. Á sama tíma jukust tekjur sveitarfélaga um 9,2% og námu alls 615,7 milljörðum króna. Almannatryggingar eru fjármagnaðar með tilfærslum frá ríkissjóði.
Skattar á tekjur og hagnað er stærsti tekjuliður hins opinbera og skilaði hann 42,7% af heildartekjum hins opinbera á árinu 2024. Alls námu tekjur hins opinbera af sköttum á tekjur og hagnað 849,6 milljörðum króna og jukust þær um 4,6% frá fyrra ári. Tekjur hins opinbera af sköttum á vöru og þjónustu jukust um 12,9% og námu 563,5 milljarði króna eða sem nemur 28,3% af heildartekjum hins opinbera. Í heildina jukust skatttekjur hins opinbera um 8,1% á árinu 2024.
Uppgjör hins opinbera í meðferð Hagstofunnar er unnið samkvæmt þjóðhagsreikningakerfi Evrópusambandsins og er meðferð á sölu eigna og tekjur af hlutdeildarfélögum og samrekstri frábrugðin uppgjöri Ríkisreiknings og sveitarfélaga. Í uppgjöri Hagstofunnar er hagnaður af sölu eigna, hlutdeild af tekjum og virðisbreyting eigna færð um efnahagsreikning. Eingöngu eru tekjufærðar tekjur af fyrirtækjum í eigu hins opinbera í formi arðgreiðslna.
Útgjöld hins opinbera námu 47,0% af VLF
Útgjöld hins opinbera námu 2.158,4 milljörðum króna árið 2024 eða sem nemur um 47,0% af VLF. Til samanburðar voru útgjöld hins opinbera 1.976,2 milljarðar króna árið 2023 eða 45,2% af VLF. Útgjöld ríkissjóðs jukust um 9,9% á milli ára, útgjöld sveitarfélaga um 6,1% og útgjöld almannatrygginga um 9,1%.
Hrein útgjöld hins opinbera, þegar tekjur vegna sölu á vöru og þjónustu hafa verið dregnar frá, námu 2.039,8 milljörðum króna árið 2024. Meirihluti útgjalda hins opinbera rennur til samneyslu, þ.e. launaútgjöld, afskriftir og kaup á vörum og þjónustu að frádreginni sölu á vörum og þjónustu eða sem nemur 58,3% af hreinum gjöldum. Samneysluútgjöld hins opinbera námu 1.188,7 milljörðum króna á árinu 2024 sem er aukning um 7,9% á milli ára á verðlagi hvers árs.
Félagslegar tilfærslur til heimila námu 16,0% af hreinum útgjöldum hins opinbera á árinu 2024 eða 326,6 milljörðum króna og jukust þær um 11,3% á verðlagi hvers árs. Framleiðslustyrkir, fjárframlög og aðrar tilfærslur námu 12,6% af hreinum útgjöldum hins opinbera. Var töluverð aukning í öðrum tilfærslum á milli ára en þar undir falla meðal annars úrræði og útgjöld vegna náttúruhamfara.
Fjárfesting hins opinbera á verðlagi hvers árs jókst um 3,8% á milli ára og nam 186,2 milljörðum króna árið 2024. Þegar tekið hefur verið tillit til afskrifta var hrein fjárfesting hins opinbera 55,3 milljarðar króna eða sem nemur 2,7% af hreinum útgjöldum hins opinbera.
Vaxtagjöld námu 10,4% af hreinum útgjöldum hins opinbera eða 212,2 milljörðum króna árið 2024, lækkuðu vaxtagjöld hins opinbera um 13,6% á milli ára. Vert er að hafa í huga að afmörkun hins opinbera í þjóðhagsreikningum og í talnaefni um fjármál hins opinbera miðast við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn (ESA2010). Með hinu opinbera teljast meðal annars lánasjóðir ríkissjóðs sem hafa veruleg áhrif á vaxtatekjur og gjöld þess.
Heildarskuldir hins opinbera námu 89,6% af VLF í lok árs 2024
Hrein peningaleg eign hins opinbera var neikvæð um 1.562,6 milljarða króna í lok árs 2024. Þar af námu heildarskuldir hins opinbera 4.110,2 milljörðum króna í lok ársins 2024 eða 89,6% af VLF. Peningalegar eignir hins opinbera námu 2.547,6 milljörðum króna í lok árs 2024 eða sem nemur 55,5% af VLF.