FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 29. JÚNÍ 2005

Hagstofan birtir nú samandregið yfirlit yfir fjármál ríkis og sveitarfélaga á 1. ársfjórðungi 2005. Samantekt efnis af þessu tagi hófst fyrir einu ári en þá birtust tölur um fjármál ríkis og sveitarfélaga fyrir 1. ársfjórðung þess árs. Nú og framvegis verður  því unnt að bera saman fjármál hins opinbera við sama fjórðung fyrra árs. Yfirlit þetta er á rekstrargrunni og er birt í lok næsta ársfjórðungs eftir að viðkomandi fjórðungi lýkur. Verkið er meðal annars unnið vegna þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem íslensk stjórnvöld hafa tekið á sig í tengslum við EES-samninginn, en það mun þó enn frekar koma innlendum stjórnvöldum að gagni við mat á hagþróun innan ársins. Þá nýtist þetta nýja efni Hagstofunni við gerð ársfjórðungslegra þjóðhagsreikninga.
 
Efnið er tvískipt. Annars vegar er efni frá Fjársýslu ríkisins um tekjur og gjöld ríkissjóðs á 1. fjórðungi ársins og hins vegar er áætlað heildaryfirlit yfir tekjur og gjöld allra sveitarfélaga í landinu á sama tíma. Tölurnar frá sveitarfélögunum byggja á úrtaki 10 sveitarfélaga með 59,4% íbúafjöldans og hefur það úrtak verið fært upp til heildar. Enn sem komið er hefur ekki reynst unnt að birta mikla sundurliðun á efninu og hefur birtingin takmarkast við rekstrartekjur, rekstrargjöld og tekjujöfnuð auk þess sem fjárfesting er sýnd sérstaklega.

Það kann að orka tvímælis hvort tekjujöfnuðurinn sé eini rétti mælikvarðinn við mat á afkomu hins opinbera þótt hann skipi öndvegi í þjóðhagsreikningum. Hagstofan hefur því ákveðið að birta einnig annan mælikvarða á afkomuna en það er rekstrarniðurstaða. Munurinn á rekstrarniðurstöðu og tekjujöfnuði er sá að rekstrarniðurstaða sýnir niðurstöðu rekstrarreiknings eftir að afskriftir hafa verið gjaldfærðar en tekjujöfnuður sýnir niðurstöðuna eftir að fjárfesting hefur verið dregin frá rekstrarniðurstöðu en aftur á móti eru afskriftir þá ekki gjaldfærðar. Munur þessara tveggja mælikvarða felst því í muninum á afskriftum og fjárfestingu. Ef fjárfestingin er hærri en afskriftir verður tekjujöfnuður lakari en rekstrarniðurstaðan sem þeim mun nemur. Ekki liggja fyrir tölur um afskriftir ríkissjóðs og því er ekki unnt að birta tölur um rekstrarniðurstöðu nema hjá sveitarfélögunum. Mat á afkomu ríkissjóðs og hins opinbera í heild takmarkast því við tekjujöfnuð líkt og verið hefur.

Fyrstu bráðabirgðatölur fyrir 1. ársfjórðung 2005 benda til að  heildartekjur ríkissjóðs hafi orðið 82,0 milljarðar króna á rekstrargrunni og tekjujöfnuður jákvæður um 8,7 milljarða króna. Tekjur hafa aukist um 22,5% frá sama fjórðungi fyrra árs en gjöld um 7,3% og afkoman því batnað verulega.

 

Fjárhagur ríkissjóðs á 1. ársfjórðungi 2004-2005    
  2004 ma.kr. 2005 ma.kr. Breyting %
 
       
1. Rekstrartekjur 66,9 82,0 22,5
2. Rekstrargjöld og fjárfesting, án afskrifta 68,3 73,3 7,3
    2.1 þar af fjárfesting 3,9 3,0 -22,4
3. Tekjujöfnuður (3.=1.-2.)  -1,4 8,7  
4. Tekjujöfnuður sem % af tekjum -2,0 10,6  
5. Tekjujöfnuður sem % af  landsframleiðslu ársins -0,2 0,9  

Tekjur sveitarfélaganna á 1. ársfjórðungi 2005 eru áætlaðar 23,4 milljarðar króna og rekstrarniðurstaðan jákvæð um 0,7 milljarða. Aftur á móti er fjárfesting áætluð nokkru meiri en afskriftir og tekjujöfnuður verður því neikvæð um 0,4 milljarða.  Talið er að tekjur sveitarfélaganna hafi aukist um 9,2% frá sama fjórðungi fyrra árs en gjöldin um 5,6%. Rekstrarniðurstaðan er því talin hafa batnað frá fyrra ári. Sama er að segja um tekjujöfnuðinn. Nú er hann áætlaður neikvæður um 0,4 milljarða en var neikvæður um 1,6 milljarða á sama fjórðungi fyrra árs.

Fjárhagur sveitarfélaga á 1. ársfjórðungi 2004-2005
  2004 ma.kr. 2005 ma.kr. Breyting %
 
       
1. Rekstrartekjur 21,4 23,4 9,2
2. Rekstrargjöld að meðtöldum afskriftum, án fjárfestinga 21,5 22,7 5,6
    2.1 þar af afskriftir 1,3 1,4 4,6
3. Rekstrarniðurstaða (3.=1.-2.)  -0,1 0,7  
4. Rekstrarniðurstaða sem % af tekjum -0,5 2,8  
5. Fjárfesting 2,8 2,5  
6. Tekjujöfnuður (6.=3.+2.1-5.) -1,6 -0,4  
7. Tekjujöfnuður sem % af tekjum -7,5 -1,9  
8. Tekjujöfnuður sem % af landsframleiðslu ársins -0,2 0,0  

Heildartekjur ríkisjóðs og sveitarfélaga, þ.e. hins opinbera í heild eru áætlaðar 105,4 milljarðar króna og tekjujöfnuður 8,3 milljarða króna eða 7,8% af tekjum þeirra. Sem hlutfall af landsframleiðslu ársins er afgangurinn áætlaður  0,9% hjá hinu opinbera í heild. Í sama fjórðungi fyrra árs var tekjujöfnuðurinn neikvæður um 3,0 milljarða eða 0,3% af landsframleiðslu ársins.

Fjárhagur ríkissjóðs og sveitarfélaga á 1. ársfjórðungi 2004-2005
  2004 ma.kr. 2005 ma.kr. Breyting %
 
       
1. Rekstrartekjur 88,3 105,4 19,3
2. Rekstrargjöld og fjárfesting, án afskrifta 91,3 97,1 6,4
    2.1 þar af fjárfesting 6,7 5,5 -18,0
3. Tekjujöfnuður (3.=1.-2.)  -3 8,3  
4. Tekjujöfnuður sem % af tekjum -3,4 7,8  
5. Tekjujöfnuður sem % af  landsframleiðslu ársins -0,3 0,9  

Í þessum tölum hefur verið leitast við að skrá bæði tekjur og gjöld á rekstrargrunni, ekki á greiðslugrunni eins og mánaðaryfirlit ríkissjóðs sýna. Rekstrargrunnur felur í sér að skuldbindingar eru bókfærðar þegar til þeirra er stofnað, óháð því hvenær greiðslur fara fram. Eins og áður segir eru þetta bráðabirgðatölur, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Sérstaklega eru tölur um fjárfestingu sveitarfélaganna óvissu háðar og er þar að hluta byggt á fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna fyrir árið í heild.     

Talnaefni (sjá "Fjárhagur hins opinbera eftir ársfjórðungum 2004-2005")

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.