FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 13. JÚNÍ 2008

Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera á 1. ársfjórðungi 2008. Í þeim fjórðungi nam tekjuafgangur hins opinbera 16,2 milljörðum króna sem er heldur lakari afkoma en á 1. ársfjórðungi 2007 er hann mældist 21,5 milljarðar króna. Sem hlutfall af landsframleiðslu var tekjuafgangurinn 1,2% og sem hlutfall af tekjum hins opinbera 10,2%. Þessi hagstæða afkoma skýrist fyrst og fremst af góðri afkomu ríkissjóðs sem mældist 13,5 milljarðar króna, en afkoma sveitarfélaganna var einnig viðunandi eða 1,3 milljarðar króna samkvæmt áætlun.
 
Tekjur hins opinbera hafa vaxið um 3,2% að meðaltali milli ársfjórðunga frá fyrsta ársfjórðungi 2004 á sama tíma og vöxtur útgjalda hefur verið um 2,4% að meðaltali. Til samanburðar hefur neysluverð hækkað um 1,4% að meðaltali milli ársfjórðunga á þessum tíma. Frá árinu 2006 hefur tekjuvöxtur hins opinbera verið að meðaltali 1,5% milli ársfjórðunga en vöxtur útgjalda 2,8%. 

Fjármál hins opinbera á 1. ársfjórðungi 2008 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.