FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 14. JÚNÍ 2017

Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um 17,6 milljarða króna á fyrsta árs­fjórð­ungi 2017. Það er lakari niðurstaða en á sama tíma 2016 þegar afkoman var jákvæð um 370,7 milljarða króna. Á fyrsta ársfjórðungi 2016 eru meðtaldar tekjur af stöðugleikaframlagi upp á 384,3 milljarða króna en án þess hefði tekjuafkoma hins opinbera á fyrsta ársfjórðungi 2016 verið neikvæð um 13,6 milljarða króna. Tekjuafgangurinn á fyrsta ársfjórðungi 2017 nam 3,1% af landsfram­leiðslu árs­fjórðungs­ins eða 6,7% af tekj­um hins opinbera.

Vegna breytinga á gagnaskilum sem átt hafa sér stað í tengslum við innleiðingu laga um opinber fjármál er óvissa í uppgjöri fjármála hins opinbera meiri nú en undir venjulegum kringumstæðum. Niðurstöður um fjármál hins opinbera á 1. ársfjórðungi eru því settar fram með fyrirvara um breytingar sem kunna að verða vegna fyllri upplýsinga.

Í ljósi nýrra upplýsinga um forsendur framlags ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur talnaefni um fjármál hins opinbera á árinu 2016 verið endurskoðað frá bráðabirgðauppgjöri sem birt var í mars sl.  Í bráðabirgðauppgjörinu var áður nefnt framlag upp á 117,2 milljarða króna bókfært til bráðabirgða yfir efnahagsreikning en í endurskoðuðu uppgjöri nú er 105,1 milljarður færður sem fjármagnstilfærsla á fjórða ársfjórðungi 2016. Breytt meðhöndlun á framlaginu leiðir til þess að afkoma hins opinbera verður lakari sem nemur framlaginu á árinu 2016. Samkvæmt fyrra bráðabirgðauppgjöri var tekjuafkoma hins opinbera áætluð 17,2% af landsframleiðslu árið 2016 en er nú eftir þessa breytingu áætluð 12,9%. Heildarendurskoðun talnaefnis um fjármál hins opinbera á árinu 2016 verður eftir sem áður birt samkvæmt birtingaráætlun þann 14. september nk.

Fjármál hins opinbera á 1. ársfjórðungi 2017 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang opinberfjarmal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.