Áætlað er að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um 32,2 milljarða króna á 1. ársfjórðungi 2020, eða sem nemur 4,8% af vergri landsframleiðslu ársfjórðungsins.
Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi dregist saman um 5,3% frá 1. fjórðungi 2019, sem rekja má til samdráttar í helstu tekjustofnum ríkissjóðs en þeir eru skattar á tekjur og hagnað, virðisaukaskattur og tryggingagjald. Að auki voru engar arðgreiðslur tekjufærðar frá fjármálafyrirtækjum samanborið við tekjufærðan arð upp á 5,3 milljarðar króna á 1. ársfjórðungi 2019.
Áætlað er að heildarútgjöld hafi aukist um 4,1% á 1. ársfjórðungi 2020 frá sama tímabili fyrra árs. Launakostnaður vegur þar þyngst en hann er áætlaður 34,3% af heildarútgjöldum hins opinbera. Áætlað er að félagslegar tilfærslur til heimila hafi aukist um 20,8% frá 1. fjórðungi 2019 og má þar rekja stærstan hluta af auknum útgjöldum til Atvinnuleysistryggingasjóðs.
Takmörkuð áhrif af Covid-19 á 1. ársfjórðungi
Þrátt fyrir merkjanleg áhrif Covid-19 á 1. ársfjórðungi, sem meðal annars koma fram í tekjusamdrætti og auknum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs, kom hluti þeirra aðgerða sem ráðist var í eða hafa verið boðaðar ekki til framkvæmda fyrr en undir lok tímabilsins eða síðar. Því má gera ráð fyrir að áhrifin af faraldrinum á afkomu hins opinbera komi því með skýrari hætti fram í hagtölum um líðandi ársfjórðung sem birtar verða í september næstkomandi. 
| Fjárhagur hins opinbera á 1. ársfjórðungi | |||
| 2019 | 2020 | Breyting | |
| Verðlag hvers árs, milljarðar króna | 1. ársfj. | 1. ársfj. | % | 
| Heildartekjur | 283,1 | 268,1 | -5,3 | 
| Heildarútgjöld | 288,6 | 300,3 | 4,1 | 
| Fjárfesting | 16,7 | 17,8 | 6,5 | 
| Tekjujöfnuður | -5,5 | -32,2 | • | 
| Tekjujöfnuður % af tekjum | -1,9 | -12,0 | • | 
| Tekjujöf. % af VLF ársfjórðungs | -0,8 | -4,8 | • | 
Bráðabirgðatölur fyrir 2019 og 2020