FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 09. JÚNÍ 2022

Áætlað er að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um 20,7 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2022 eða sem nemur 2,4% af vergri landsframleiðslu ársfjórðungsins. Þetta er töluverður viðsnúningur frá fyrsta ársfjórðungi 2021 þegar hallinn nam 8,6% af vergri landsframleiðslu ársfjórðungsins.

Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi aukist um 17,7% frá fyrsta fjórðungi 2021, þar af nemur aukning skatttekna 10,7%. Fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins hafa samþykkt að greiða arðgreiðslur að fjárhæð 27,9 milljörðum króna á árinu 2022 og eru þær tekjufærðar á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er mikil aukning frá fyrra ári en þá námu arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins 7,9 milljörðum króna.

Áætlað er að heildarútgjöld hafi aukist um 3,6% á fyrsta ársfjórðungi 2022 frá sama tímabili fyrra árs sem skýrist að umtalsverðu leyti af auknum launakostnaði en áætlað er að hann hafi aukist um 8,2% frá sama tímabili fyrra árs. Hins vegar er áætlað að tilfærsluútgjöld hafi dregist saman um 9,4% og félagslegar tilfærslur til heimila um 8,1% frá fyrsta fjórðungi 2021. Samdráttur í tilfærsluútgjöldum skýrist meðal annars af minna atvinnuleysi en útgjöld vegna atvinnuleysistrygginga drógust saman um 45,9% á tímabilinu.


Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang opinberfjarmal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.