Áætlað er að heildartekjur og -útgjöld hins opinbera hafi verið í jafnvægi á fyrsta ársfjórðungi 2024. Tekjuafkoma mælist jákvæð um 0,7 milljarða á fjórðungnum. Er þetta annar ársfjórðungurinn í röð þar sem bráðabirgðagögn benda til þess að afkoma hins opinbera hafi verið jákvæð.
Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi aukist um 9,5% frá fyrsta ársfjórðungi 2023. Vegur þyngst auknar tekjur vegna skatta á tekjur og hagnað, sem áætlað er að hafi aukist um 18,8% frá sama tímabili fyrra árs, ásamt auknum tekjum vegna tryggingagjalds sem jukust um 11,3%.
Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld hafi aukist um 3,9% á fyrsta ársfjórðungi 2024 frá sama tímabili fyrra árs. Samneysluútgjöld hins opinbera halda áfram að aukast en áætlað er að launakostnaður hafi aukist um 9,5% og útgjöld vegna kaupa á vöru og þjónustu um 10,7%. Bráðabirgðagögn benda til þess að útgjöld vegna framleiðslustyrkja hafi aukist um 25,9%. Á sama tíma er áætlað að vaxtagjöld hins opinbera hafi dregist saman um 26,7% frá fyrsta ársfjórðungi 2023 sem vegur þungt á móti þeim útgjaldaliðum sem hafa verið að aukast.
Vert er að hafa í huga að afmörkun hins opinbera í þjóðhagsreikningum og í talnaefni um fjármál hins opinbera miðast við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn (ESA2010). Með hinu opinbera teljast meðal annars lánasjóðir ríkissjóðs sem hafa veruleg áhrif á vaxtatekjur og gjöld þess. Í greinagerð sem gefin var út 30. nóvember 2020 og er aðgengileg á vef Hagstofunnar er fjallað sérstaklega um aðferðafræðilegan grundvöll geiraflokkunar og úrlausn álitamála er snúa að flokkun fyrirtækja og stofnana í eigu ríkisins.