Áætluð tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um 1,5 milljarða króna á 2. árs­fjórð­ungi 2018 eða sem nemur 0,2% af landsframleiðslu ársfjórðungsins. Á sama tíma árið 2017 var afkoman neikvæð um 28,4 milljarða króna. Þessi neikvæða afkoma á 2. ársfjórðungi 2017, skýrist öðru fremur af 35,0 milljarða króna fjármagnstilfærslu sveitarfélaga til Brúar lífeyrissjóðs, sem tilkomin er vegna breytinga á A deild sjóðsins. Heildartekjur hins opinbera jukust um 2,5% milli 2. ársfjórðungs 2017 og 2018 á sama tíma og heildarútgjöld drógust saman um 7,6%.

Vegna tafa á útgáfu Ríkisreiknings fyrir árið 2017, eru tölur fyrir 2017 enn bráðabirgðatölur. Útgáfan Fjármál hins opinbera 2017 – endurskoðun, sem fyrirhuguð var samhliða ársfjórðungsútgáfunni í dag, hefur verið frestað til 13. desember næstkomandi.

Vegna breytinga á gagnaskilum sem átt hafa sér stað í tengslum við innleiðingu laga um opinber fjármál er óvissa í uppgjöri fjármála hins opinbera meiri nú en undir venjulegum kringumstæðum. Niðurstöður um fjármál hins opinbera á 2. ársfjórðungi eru því settar fram með fyrirvara um breytingar sem kunna að verða vegna fyllri upplýsinga.

Fjármál hins opinbera á 2. ársfjórðungi 2018 — Hagtíðindi

Talnaefni