Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um 6,1 milljarð króna á 2. ársfjórðungi 2019, eða sem nemur 0,8% af vergri landsframleiðslu ársfjórðungsins. Tekjur hins opinbera jukust um 7,1% frá 2. ársfjórðungi 2018 en um 2,5% á fyrstu 6 mánuðum ársins 2019 samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2018. Helsta skýringin á auknum tekjum á 2. ársfjórðungi 2019 er tímasetning tekjufærslu arðgreiðslna. Arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum voru tekjufærðar á fyrsta ársfjórðungi 2018 meðan tæp 70% af arðgreiðslum eru tekjufærðar á 2. ársfjórðungi 2019. Heildarútgjöld jukust um 6,1% á 2. ársfjórðungi 2019 frá sama tímabili fyrra árs. Launakostnaður vegur þar þyngst en hann nemur um 35,3% af heildarútgjöldum hins opinbera. Fjárfesting jókst um rúmlega 21% á 2. ársfjórðungi 2019 samanborið við sama tímabil fyrra árs. Taka þarf tillit til þess að á öðrum ársfjórðungi 2019 fékk ríkið nýjan Herjólf afhentan og er gjaldfærð fjárfesting vegna hans 4,4 milljarðar króna.
Fjárhagur hins opinbera á 2. ársfjórðungi | |||
2018 | 2019 | Breyting | |
Verðlag hvers árs, milljarðar króna | 2. ársfj. | 2. ársfj. | % |
Heildartekjur | 288,0 | 308,5 | 7,1 |
Heildarútgjöld | 284,8 | 302,3 | 6,1 |
Fjárfesting | 23,2 | 28,1 | 21,1 |
Tekjujöfnuður | 3,1 | 6,1 | • |
Tekjujöfnuður % af tekjum | 1,1 | 2,0 | • |
Tekjujöf. % af VLF ársfjórðungs | 0,4 | 0,8 | • |