Áætlað er að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um 88,2 milljarða króna á 2. ársfjórðungi 2021 eða sem nemur 11,1% af vergri landsframleiðslu (VLF) ársfjórðungsins.
Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi aukist um 6% frá öðrum ársfjórðungi 2020, þar af nemur aukning skatttekna 7,2%. Tekjur af sköttum á tekjur og hagnað einstaklinga og lögaðila jukust um 8,4% á sama tíma.
Heildarútgjöld hins opinbera eru talin hafa aukist um 5,1% á öðrum ársfjórðungi 2021 frá sama tímabili fyrra árs. Launakostnaður vegur þar þyngst en hann nemur um 33,5% af heildarútgjöldunum. Áætlað er að félagslegar tilfærslur til heimila hafi dregist saman um 1,6% frá öðrum ársfjórðungi 2020 en önnur tilfærsluútgjöld aukist um 23,6% á sama tímabili.
| Fjárhagur hins opinbera á 2. ársfjórðungi | |||
| 2020 | 2021 | Breyting | |
| Verðlag hvers árs, milljarðar króna | 2. ársfj. | 2. ársfj. | % |
| Heildartekjur | 294,5 | 312,1 | 6,0 |
| Heildarútgjöld | 380,9 | 400,4 | 5,1 |
| Fjárfesting | 25,7 | 30,1 | 17,3 |
| Tekjujöfnuður | -86,4 | -88,2 | • |
| Tekjujöfnuður % af tekjum | -29,3 | -28,3 | • |
| Tekjujöf. % af VLF ársfjórðungs | -12,2 | -11,1 | • |

Áhrifa af Covid-19 gætir enn á öðrum ársfjórðungi
Áhrifa kórónuveirufaraldursins á fjármál hins opinbera gætir enn. Áhrifin koma einna helst fram í útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs og í auknum útgjöldum hins opinbera vegna tilfærslna til fyrirtækja, meðal annars vegna tekjufalls- og viðspyrnustyrkja sem námu um 5,2 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Ýmsar aðgerðir stjórnvalda voru enn virkar á öðrum ársfjórðungi 2021 og má þar nefna lokunarstyrki, ferðagjöf, laun í sóttkví, barnabótaauka og „Allir vinna“ sem er tímabundin hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts.
Bráðabirgðatölur fyrir 2021