FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 12. SEPTEMBER 2024

Áætlað er að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um 83,5 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi 2024 eða sem nemur 7,4% af vergri landsframleiðslu ársfjórðungsins. Til samanburðar nam hallinn á öðrum ársfjórðungi 2023 3,3% af vergri landsframleiðslu þess ársfjórðungs.

Afkoma hins opinbera er áætluð út frá bráðabirgðatölum. Niðurstöður munu taka breytingum þegar uppgjör liggur fyrir.

Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi aukist um 5,2% frá öðrum fjórðungi 2023. Tekjur af sköttum og tryggingagjaldi jukust um 4,0% og eignatekjur um 10,8%.

Áætlað er að heildarútgjöld hafi aukist um 14,5% á öðrum ársfjórðungi 2024 frá sama tímabili fyrra árs. Helsta skýringin á slakri afkomu hins opinbera eru aukin útgjöld vegna jarðhræringa og eldgosa við Grindavík. Áhrifin eru einnig áberandi á fjórða ársfjórðungi 2023. Úrræði ríkissjóðs til að tryggja örugga afkomu Grindvíkinga, greiðslur úr náttúruhamfarasjóði vegna húsnæðis sem hefur verið dæmt ónýtt og kaup á fasteignum í Grindavík eru færð sem tilfærsluútgjöld. Kaup ríkissjóðs á fasteignum í Grindavík eru að svo stöddu ekki færð sem fjárfesting þar sem mikil óvissa ríkir um virði fasteigna á svæðinu. Þessi útgjaldaflokkun kann að verða endurskoðuð síðar.

Vert er að hafa í huga að afmörkun hins opinbera í þjóðhagsreikningum og í talnaefni um fjármál hins opinbera miðast við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn (ESA2010). Með hinu opinbera teljast meðal annars lánasjóðir ríkissjóðs sem hafa veruleg áhrif á vaxtatekjur og gjöld þess. Í greinagerð sem gefin var út 30. nóvember 2020 og aðgengileg er á vef Hagstofunnar er fjallað sérstaklega um aðferðafræðilegan grundvöll geiraflokkunar og úrlausn álitamála er snúa að flokkun fyrirtækja og stofnana í eigu ríkisins.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang opinberfjarmal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.