Afkoma hins opinbera er áætluð neikvæð um 68,6 milljarða króna, eða sem nemur 9,4% af vergri landsframleiðslu ársfjórðungsins. Kórónaveirufaraldurinn (Covid-19) hefur haft umtalsverð áhrif á afkomu hins opinbera á árinu 2020 og hafa efnahagsaðgerðir stjórnvalda, sem gripið var til vegna faraldursins, haft mikil áhrif bæði á tekjuöflun hins opinbera og útgjöld þess.

Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi dregist saman um 5% borið saman við 3. ársfjórðung 2019. Áætlað er að tekjur af sköttum á tekjur og hagnað hafi aukist um 3%. Áætlaðar tekjur af sköttum á vöru og þjónustu drógust saman um 21,5% á 3. ársfjórðungi og vegur þar þyngst samdráttur í innheimtum tekjum af virðisaukaskatti sem dróst saman um 37%.

Áætlað er að tekjur af tryggingagjaldi hafi dregist saman um 6,2% á 3. ársfjórðungi sem skýrist m.a. af lækkun á tryggingagjaldi um 0,25 prósentustig.

Áætlað er að heildarútgjöld hins opinbera hafi aukist um 13,4% á 3. ársfjórðungi 2020 frá sama tímabili fyrra árs. Launakostnaður vegur þar þyngst en hann er áætlaður um 32% af heildarútgjöldum hins opinbera.

Áætlað er að félagslegar tilfærslur til heimila hafi aukist um 15% borið saman við 3. ársfjórðung 2019 og má þar rekja stærstan hluta aukinna útgjalda til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Útgjöld sjóðsins vegna hlutabótaleiðarinnar námu um 2 milljörðum króna, auk þess sem útgjöld vegna almennra atvinnuleysisbóta hækkuðu umtalsvert vegna aukins atvinnuleysis.

Framleiðslustyrkir hins opinbera hækkuðu um tæp 134% frá 3. ársfjórðungi 2019 og er stærsti liðurinn þar greiðsla launa á uppsagnarfresti sem námu 9,4 milljörðum króna á tímabilinu.

Við endurskoðun á geiraflokkun opinberra aðila í lok nóvember sl. færðust 24 einingar sem hingað til hafa verið flokkaðar utan hins opinbera, þ.e. A-hluta ríkissjóðs, A- hluta sveitarfélaga og almannatrygginga, yfir til hins opinbera. Ekki liggja fyrir fjárhagsupplýsingar þessara eininga fyrir árið 2020 og eru þær því áætlaðar í þessari útgáfu.

Fjárhagur hins opinbera á 3. ársfjórðungi
20192020 Breyting
Verðlag hvers árs, milljarðar króna 3. ársfj. 3. ársfj. %
Heildartekjur 314,6 298,8 -5,0
Heildarútgjöld 324,0 367,4 13,4
Fjárfesting 30,3 28,6 -5,5
Tekjujöfnuður -9,4 -68,6
Tekjujöfnuður % af tekjum -3,0 -23,0
Tekjujöfnuður % af VLF ársfjórðungs -1,2 -9,4

Bráðabirgðatölur fyrir 2020

Talnaefni