FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 14. DESEMBER 2022

Áætlað er að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið neikvæð um 53,3 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2022, eða sem nemur 5,3% af vergri landsframleiðslu ársfjórðungsins.

Í heild er áætlað að tekjur hins opinbera hafi aukist um 16,7% frá þriðja ársfjórðungi 2021. Vegur aukning skatttekna þyngst en áætlað er að tekjur vegna skatta á tekjur og hagnað hafi aukist um 12,3% og tekjur vegna skatta á vöru og þjónustu um 13,9% frá sama tímabili fyrra árs. Á sama tímabili er áætlað að tekjur vegna tryggingagjalda hafi aukist um 17,6%. Áætlað er að aðrar tekjur hafi aukist um 40,3% á þriðja ársfjórðungi 2022 frá sama tímabili fyrra árs og vega þar þyngst auknar vaxtatekjur.

Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld hafi aukist um 13,1% á þriðja ársfjórðungi 2022 frá sama tímabili fyrra árs. Aukin vaxtagjöld vega þar þyngst en áætlað er að vaxtagjöld hafi hækkað um rúma 28 milljarða króna frá þriðja ársfjórðungi 2021.

Samneysluútgjöld hins opinbera halda áfram að aukast en áætlað er að launakostnaður hafi aukist um 7,9% og útgjöld vegna kaupa á vöru og þjónustu um 10,7% frá sama tímabili fyrra árs. Hins vegar er áætlað að tilfærsluútgjöld hafi dregist saman um 21,6% og að félagslegar tilfærslur til heimila hafi dregist saman um 3,2% frá þriðja fjórðungi 2021. Samdráttur í félagslegum tilfærslum skýrist meðal annars af minna atvinnuleysi en útgjöld vegna atvinnuleysistrygginga drógust saman um 47,0% á tímabilinu.

Vert er að hafa í huga að afmörkun hins opinbera í þjóðhagsreikningum og í talnaefni um fjármál hins opinbera miðast við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn (ESA2010). Sem hluti af hinu opinbera teljast meðal annars lánasjóðir ríkissjóðs sem hafa veruleg áhrif á vaxtatekjur og gjöld hins opinbera. Í greinagerð sem gefin var út 30. nóvember 2020 og er aðgengileg á vef Hagstofunnar er fjallað sérstaklega um aðferðafræðilegan grundvöll geiraflokkunar og úrlausn álitamála er snúa að flokkun fyrirtækja og stofnana í eigu ríkisins.


Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang opinberfjarmal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.