Samhliða birtingu talnaefnis fjármála hins opinbera fyrir þriðja ársfjórðung 2020 birtir Hagstofa Íslands niðurstöður heildarendurskoðunar tímaraða talnaefnisins. Endurskoðunin er í samræmi við samþykkta stefnu og leiðbeiningar Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) um reglulegar heildarendurskoðanir þjóðhagsreikninga og samræmda tímasetningu þeirra.

Slíkar endurskoðanir gera Hagstofu Íslands kleift að taka inn nýjar gagnaheimildir og breyttar aðferðir við gerð talnaefnis með það að markmiði að viðhalda og styrkja gæði niðurstaðna. Endurskoðunin á talnaefni fjármála hins opinbera nær frá og með árinu 1998 til ársins 2019.

Meginbreytingin í endurskoðun á tímaröðum fjármála hins opinbera felst í flokkun hagaðila og hafa alls tuttugu og fjórar stofnanir sem áður voru flokkaðar utan hins opinbera verið endurflokkaðar og teljast nú innan þess.

Heildaráhrif endurskoðunarinnar á afkomu hins opinbera eru yfirleitt jákvæð en áhrifin koma einna helst fram í talnaefni um eignir og skuldir hins opinbera. Áhrif breyttrar geiraflokkunar á skuldir hins opinbera eru umtalsverð og aukast þær að meðaltali um 35% árin 2017 til 2019 frá áður birtum niðurstöðum. Þessa aukningu má að stærstum hluta rekja til breyttrar flokkunar Íbúðalánasjóðs og þeirra stofnana sem tóku við starfsemi sjóðsins árið 2019.

Auk útgáfu meðfylgjandi Hagtíðinda um heildarendurskoðun tímaraða fjármála hins opinbera gaf Hagstofan út þann 30. nóvember sl. sérstaka greinargerð um flokkun hageininga í þjóðhagsreikningum með umfjöllun um aðferðafræði og úrlausn álitaefna sem snúa að afmörkun hins opinbera hér á landi og er greinargerðin birt hér aftur.

Talnaefni tekjuskiptingaruppgjörs hefur einnig verið uppfært samhliða endurskoðun tímaraða þjóðhagsreikninga og fjármála hins opinbera. Talnaefni fyrir fjármál hins opinbera eftir málaflokkum verður uppfært þann 18. desember nk. og talnaefni fjármálareikninga verður uppfært þann 25. janúar 2021.

Heildarendurskoðun á fjármálum hins opinbera 1998-2019 - Hagtíðindi