Hagstofa Íslands hefur reiknað út meðalrekstrarkostnað á hvern nemanda í öllum grunnskólum sem reknir eru af sveitarfélögum, skv. 3. mgr. 43. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og 7. gr. reglugerðar um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan nr. 699 frá 25. júlí 2012.
Um útreikning þennan fer samkvæmt 2. mgr. 7. gr. ofangreindrar reglugerðar sem hér segir:
„Útreikningur Hagstofu Íslands skv. 1. mgr. vegna komandi skólaárs skal liggja fyrir í september ár hvert. Útreikningur skal byggður á ársreikningum sveitarfélaga fyrir liðið ár, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga til þess dags sem útreikningur er gerður. Verðlagsbreytingar skulu taka mið af almennum launahækkunum starfsmanna grunnskóla og breytingum á vísitölu neysluverðs að teknu tilliti til vægis hvors þáttar fyrir sig í rekstrarkostnaði grunnskólanna.“
Meðalrekstrarkostnaður á hvern nemanda í grunnskólum árið 2015 reyndist vera 1.651.002 krónur og vegin meðalverðbreyting rekstrarkostnaðar frá árinu 2015 til september 2016 var metin 4,1%.
Niðurstöður útreikningsins eru því þær að áætlaður rekstrarkostnaður á hvern nemanda í grunnskólum, sem reknir eru af sveitarfélögum, sé 1.719.292 krónur í september 2016.