FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 10. NÓVEMBER 2011

Út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um útgjöld til fræðslumála á Íslandi. Útgjöldum til málaflokksins frá 1980 til 2010 er lýst í fjárhæðum, hlutfallstölum og raunstærðum en ítarlegri upplýsingar um málaflokkinn er að finna á vefsíðu Hagstofunnar.

Árið 2010 námu heildarútgjöld til fræðslumála 128,2 milljörðum króna eða 8,3% af landsframleiðslu. Þar af var hlutur hins opinbera 116,7 milljarðar króna en hlutur einkaaðila 11,5 milljarðar eða 9,0% af útgjöldunum. Af heildarútgjöldum hins opinbera árið 2010 runnu 16,2% til fræðslumála. Sem hlutfall af landsframleiðslu hafa heildarútgjöld til fræðslumála hækkað úr ríflega 7,4% af landsframleiðslu 1998 í rúmlega 8,3% á árinu 2010 eins og áður segir.

Af heildarútgjöldum til fræðslumála árið 2010 runnu um 11,5% til fræðsluhluta leikskólans, 42,7% til grunnskólans, 17,3% til framhaldsskóla, 20,9% til háskólastigsins og 7,6% til stjórnsýslu menntamála og þátta sem ekki tilheyra ákveðnu skólastigi. Af útgjöldum hins opinbera til fræðslumála árið 2010 runnu um 9,6% til leikskólastigsins, 46,4% til grunnskólans, 17,1% til framhaldsskólans, 21,5% til háskólastigsins og 5,5% voru vegna útgjalda sem tilheyra ekki ákveðnu skólastigi.


Af útgjöldum einkageirans til fræðslumála árið 2010 runnu um 31,3% til leikskólastigsins, 5,2% til grunnskólastigsins, 19,7% til framhaldsskólastigsins, 14,6% til háskólastigsins og 29,2% til annarra fræðslumála, óflokkuð á skólastig.
 

Heildarútgjöld til fræðslumála í aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) voru að meðaltali 5,5% af landsframleiðslu ríkjanna árið 2008 en mikill munur er á því hlutfalli milli einstakra ríkja. Hlutfallið hæst á Íslandi 7,9% af landsframleiðslu en lægst var það meðal OECD ríkjanna í Slóvakíu 4,0% en meðal G20 ríkjanna var þetta hlutfall lægst í Indónesíu og Kína 3,3%.

Útgjöld til fræðslumála á Íslandi 1998-2010 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.