FRÉTT FJÁRMÁL HINS OPINBERA 30. MARS 2022

Heildarútgjöld til fræðslumála á Íslandi námu 232 milljörðum króna, eða 7,9% af landsframleiðslu, árið 2020. Til samanburðar námu heildarútgjöld til fræðslumála, á föstu verðlagi ársins 2020, 66,3 milljörðum króna árið 1980, eða 4,6% af landsframleiðslu, og 150 milljörðum árið 1998 eða 6,8% af landsframleiðslu.

Að teknu tilliti til mannafjöldaþróunar jukust útgjöld til fræðslumála um 15,4% að raungildi hér á landi á tímabilinu frá 1998 til ársins 2020, munar þar mestu um aukin útgjöld til leikskólastigsins sem jukust um 67% að raungildi. Á sama tímabili jukust útgjöld til háskólastigsins um 40% að raungildi á mann og útgjöld til grunnskólastigsins um 8,4% en á sama mælikvarða drógust útgjöld til framhaldsskólastigsins hins vegar saman 12,4% á tímabilinu. Þrátt fyrir að útgjöld til fræðslumála á mann hafi aukist að raungildi frá árinu 1998 hafa þau dregist saman um 10,7% að raungildi frá 2008 þegar þau mældust hæst.

Hagstofa Íslands hefur tekið saman sögulegt yfirlit yfir þróun útgjalda til fræðslumála á Íslandi á árunum 1980-2020. Í meðfylgjandi Hagtíðindum má finna tölfræðilegt yfirlit yfir útgjöld til fræðslumála á Íslandi, sundurliðuð á grundvelli alþjóðlegra staðla og flokkunarkerfa ásamt umfjöllun um meginniðurstöður.

Hlutur einkaaðila 8,4% árið 2020
Af heildarútgjöldum til fræðslumála árið 2020 nam hlutur hins opinbera 91,6% og hlutur einkaaðila 8,4%. Hlutur einkaaðila í heildarútgjöldum hefur dregist lítillega saman á tímabilinu en hann var 9,6% árið 1998. Hlutur sveitarfélaga í útgjöldum hins opinbera til fræðslumála hefur farið vaxandi á tímabilinu en hann var 59,8% árið 1998 og 65,2% árið 2020.

Tæplega 46% heildarútgjalda er varið til grunnskólastigsins
Tæpur helmingur heildarútgjalda til fræðslumála árið 2020, eða 46%, var varið til grunnskólastigsins. Um 13% var ráðstafað til leikskóla, 16% til framhaldsskóla, 17% til háskóla og tæpum 8% til annarra fræðslumála sem eru ótalin annars staðar og óflokkuð á skólastig.

Útgjöld til fræðslustofnana yfir meðaltali OECD
Á Íslandi hafa útgjöld til fræðslustofnana verið yfir meðaltali OECD ríkjanna undanfarin ár en samkvæmt gögnum OECD, sem ætluð eru til samanburðar á milli ríkja, voru útgjöld til fræðslustofnana á Íslandi 8,0% af vergri landsframleiðslu árið 2018. Á sama tíma voru útgjöld til fræðslustofnana í ríkjum OECD að meðaltali 5,8% af vergri landsframleiðslu.

Útgjöld til fræðslumála á Íslandi 1980-2020 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang opinberfjarmal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.