Hagstofan hefur tekið saman yfirlit um afkomu atvinnurekstrar á árinu 2003 með samanburði við árið 2002. Yfirlitið nær til ársreikninga 25.136 fyrirtækja, þ.e. lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, árið 2002 og 26.055 fyrirtækja, árið 2003. Í samantektinni eru 19.239 fyrirtæki þau sömu bæði árin. Aukinn fjölda fyrirtækja má rekja til þess að einstaklingsrekstur með veltu á bilinu kr. 500 þúsund til kr. 20 milljónir er nú meðtalinn, svo og til mikillar fjölgunar einkahlutafélaga um rekstur, sem áður var í formi einstaklingsrekstrar.
Í yfirliti þessu eru fyrirtæki í öllum atvinnurekstri, að meðtöldum fyrirtækjarekstri hins opinbera, þ.m.t. fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga, sem rekin eru í hlutafélags- eða samlagsformi og orku-, veitu- og fjölmiðlafyrirtæki, en önnur starfsemi hins opinbera er undanskilin. Starfsemi lífeyrissjóða er einnig undanskilin.
Á árinu 2003 varð hagnaður af reglulegri starfsemi 19.239 fyrirtækja sem voru einnig í rekstri árið 2002 (paraður samanburður) 6,1% af tekjum en árið áður var hagnaður sömu fyrirtækja 6,6% af tekjum. Á árinu 2003 varð hagnaður af reglulegri starfsemi allra fyrirtækja í safninu 26.055 að tölu, 5,9% af tekjum, en árið áður var hagnaður af reglulegri starfsemi 25.136 fyrirtækja 6,3% af tekjum.
Ársreikningar fyrirtækja 2002-2003 - Hagtíðindi