Gistinóttum á hótelum fækkaði um 11,4% í desember 2025 samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands um ferðaþjónustu á Íslandi. Alls voru gistinæturnar tæplega 300.000 á landsvísu en til samanburðar voru þær tæplega 339.000 á sama tíma árið 2024. Gistinóttum fækkaði í flestum landshlutum og hlutfallslega mest á Austurlandi (-27,2%). Á Vesturlandi og Vestfjörðum nam fækkunin 17,6% og 16,4% á höfuðborgarsvæðinu. Þá var einnig 5,1% fækkun á Suðurlandi. Á Norðurlandi fjölgaði hins vegar gistinóttum um 11,2% og sömuleiðis á Suðurnesjum um 9,6%.
Í desember fækkaði gistinóttum samtals um tæplega 39 þúsund. Þar af var áberandi mest fækkun á höfuðborgarsvæðinu eða um rúmlega 36 þúsund en samanlagt um tæplega þrjú þúsund í öðrum landshlutum. Á árinu 2025 fjölgaði hins vegar gistinóttum á hótelum í heild sinni um rúmlega 171 þúsund eða 3,3% á landinu öllu.
Gistinætur erlendra ferðamanna voru um 267.000, eða 89% af gistinóttum hótela, og var það 9,2% fækkun frá fyrra ári. Gistinætur Íslendinga á hótelum voru rúmlega 33.000 sem var 25,8% minna en í desember árið 2024. Flestar erlendar gistinætur tilheyrðu Bandaríkjamönnum eða um 63 þúsund og fækkaði þeim um 25,7% á milli ára. Þá fækkaði einnig gistinóttum Breta (59 þúsund) um 10,3%. Aftur á móti fjölgaði gistinóttum Kínverja (34 þúsund) um 23,5%. Alls fjölgaði gistinóttum erlendra ferðamanna um 8,8% á árinu 2025 en gistinóttum Íslendinga fækkaði hins vegar um 27,7%.
Framboð hótelherbergja jókst um 1,5% á landinu í desember. Mest jókst framboð herbergja á Suðurlandi eða um 8,6%. Á höfuðborgarsvæðinu var lítilsháttar breyting (0,4%) og óbreyttur fjöldi á Austurlandi. Fækkun var hins vegar á hótelherbergjum á Suðurnesjum (-5,1%), Vesturlandi og Vestfjörðum (-2,3%) og Norðurlandi (-1,9%). Alls voru 166 hótel starfandi í desember 2025 með 11.773 herbergi og var fjöldinn aðeins meiri en á sama tíma árið 2024 þegar alls voru starfandi 163 hótel. Á höfuðborgarsvæðinu voru rekin 58 hótel með alls 5.554 herbergi og 50 á Suðurlandi með 2.992 herbergi.
Herbergjanýting dróst saman um 6,8 prósentustig á landinu í heild. Mest minnkaði nýtingin á höfuðborgarsvæðinu (-12,4 prósentustig). Þá var einnig 6,2 prósentustiga minnkun á Suðurlandi, 4,4 prósentustiga minnkun á Austurlandi og 3,1 prósentustiga minnkun á Vesturlandi og Vestfjörðum. Aftur á móti batnaði nýting á Suðurnesjum um 9,4 prósentustig og 2,0 prósentustig á Norðurlandi. Í desember var herbergjanýting engu að síður mest á höfuðborgarsvæðinu (58,4%) og því næst á Suðurnesjum (54,3%).
Allir gististaðir
Þegar allir skráðir gististaðir (hótel, gistiheimili, tjaldsvæði, orlofshús, o.fl.) eru skoðaðir var áætlaður heildarfjöldi gistinátta í desember tæplega 399.000. Þetta var 9,9% fækkun miðað við sama tíma árið 2024 en þá var heildarfjöldi gistinátta á öllum gististöðum rúmlega 442.000. Meginþorri gistinátta var á hótelum og gistiheimilum eða um 338.000 (300.000 á hótelum og 38.000 á gistiheimilum) en tæplega 61.000 á öðrum tegundum skráðra gististaða (tjaldsvæðum, orlofshúsum, o.s.frv.). Á árinu 2025 var áætlaður heildarfjöldi gistinátta á öllum skráðum gististöðum alls 10.160.000 sem var 9,1% meira en árið 2024.
Lýsigögn
Tölur um gistinætur fyrir skráða gististaði eru fengnar úr gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Lýsigögn um fjölda gististaða, gesta og gistinátta má nálgast á vef Hagstofunnar.
Gögn sem fást frá gististöðum geta innihaldið tölur um fjölda gistinátta af óþekktum þjóðernum og er þeim tölum dreift með hlutfallslegum hætti á þekkt þjóðerni hverju sinni.
Allar tölur fyrir 2025 eru bráðabirgðatölur nema tölur um gistinætur hótela þar sem bráðabirgðatölur eru fyrir desember 2025.