Út er komið hefti í efnisflokknum Fyrirtæki og umsvif þar sem birtar eru upplýsingar um fjölda framkvæmdastjóra, stjórnarformanna og stjórnar-manna eftir kyni, starfsemi fyrirtækja og stærð þeirra.
Þar kemur m.a. fram að árið 2004 voru konur 18% framkvæmdastjóra og 22% stjórnarformanna starfandi fyrirtækja sem skráð eru í hlutafélagaskrá. Hlutfall kvenna miðað við karla er hæst í minnstu fyrirtækjunum og minnkar eftir því sem fyrirtækin stækka. Hlutfall kvenna er einnig hæst í yngsta aldurshópi framkvæmdastjóra og stjórnarformanna. Konur starfa í ríkari mæli í verslun og þjónustu en karlar.
Hlutfall kvenkyns framkvæmdastjóra jókst úr rúmum 15% árið 1999 í tæp 18% árið 2004 og er sú fjölgun aðallega fyrir tilstuðlan nýrra fyrirtækja. Hlutfall kvenkyns stjórnarformanna hefur ekkert breyst frá árinu 1999. Í árslok 2004 sátu 4.000 konur og 12.000 karlar í stjórnum starfandi fyrirtækja. Stjórnarstöður kvenna voru 4.300 og karla 15.000.
Konur í forystu fyrirtækja 1999-2004 - útgáfur