FRÉTT FYRIRTÆKI 03. MARS 2022

Árið 2020 hófu 3.890 fyrirtæki starfsemi og var heildarfjöldi virkra fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu 32.765. Flest fyrirtæki sem hófu starfsemi voru í byggingarstarfsemi og tengdum greinum, eða 671 fyrirtæki árið 2020. Í einkennandi greinum ferðaþjónustu hófu 315 fyrirtæki starfsemi árið 2020, samanborið við 513 árið 2019.

Hlutfall fyrirtækja sem hófu starfsemi, af heildarfjölda virkra fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu, var 11,9% árið 2020. Það hlutfall var lægst í einkennandi greinum ferðaþjónustu, eða um 7,5%, en hæst 15% í tækni- og hugverkaiðnaði.

Með fyrirtækjum er bæði átt við lögaðila og einstaklinga sem hefja rekstur á eigin kennitölu. Fjöldi starfsmanna hjá fyrirtækjum sem hófu starfsemi árið 2020 var rúmlega 3.400 og námu rekstrartekjur þessara fyrirtækja 45,5 milljörðum.

Á árunum 2017-2020 voru 1.654 fyrirtæki í örum vexti þar sem aukning í rekstrartekjum var að lágmarki 10% á ári yfir 3 ára tímabil. Árið 2020 voru þessi fyrirtæki með tæplega 1.200 milljarða í rekstrartekjur og með yfir 28 þúsund starfsmenn. Til samanburðar var velta þessara fyrirtækja rúmlega 670 milljarðar í upphafi vaxtartímabils árið 2017.

Þegar horft er til stærðar fyrirtækja í örum vexti þá voru 1.231 fyrirtæki með tvo til níu starfsmenn og tæplega 290 milljarða í rekstrartekjur árið 2020. Fjöldi fyrirtækja í örum vexti, með 10 eða fleiri starfsmenni, voru 423 og með rúmlega 910 milljarða í rekstrartekjur.

Mestar rekstrartekjur árið 2020 hjá fyrirtækjum í örum vexti voru innan heild- og smásöluverslunar eða rúmlega 490 milljarðar og í sjávarútvegi eða rúmlega 170 milljarðar. Til samanburðar voru rekstrartekjur alla virka fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu rúmlega 4.240 milljarðar.

Fjöldi fyrirtækja í örum vexti í viðskiptahagkerfinu fækkar lítillega á milli ára, úr 1.682 árið 2019 í 1.654 árið 2020, eða um 1,7% milli ára. Flest fyrirtæki í örum vexti voru í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, 431 árið 2020 og fækkaði um 11,5% miðað við árið 2019.

Fyrirtækjum í örum vexti fjölgaði verulega á milli ára í heild- og smásöluverslun, úr 266 árið 2019 í 405 árið 2020, eða um 52%, og í sjávarútvegi úr 68 árið 2019 í 127 árið 2020, eða um 87%.

Rúmlega 73% fyrirtækja sem hófu starfsemi árið 2019 og teljast með viðskiptahagkerfinu voru enn virk á árinu 2020. Þetta hlutfall hefur ekki verið lægra síðan 2009 fyrir fyrirtæki sem hófu starfsemi árið 2008. Hlutfall fyrirtækja sem hófu starfsemi árið 2019 og voru virk árið 2020 var hæst í sjávarútvegi, eða um 80% en lægst 69,8% í framleiðslu án fiskvinnslu.

Hlutfall fyrirtækja sem hófu starfsemi árið 2015 og voru virk fimm árum síðar, eða 2020, var 39,7% í viðskiptahagkerfinu. Þetta hlutfall var hæst í sjávarútvegi, eða um 46,9%, en lægst 36,4% í tækni- og hugverkaiðnaði.

Rekstrartekjur hjá fyrirtækjum sem hófu starfsemi árið 2015 og voru enn virk árin 2020 í viðskiptahagkerfinu jukust um rúmlega 24 milljarða, úr 14,2 milljörðum í 38,3 milljarða á sama tímabili.

Rekstrartekjur fimm ára fyrirtækja í heild- og smásöluverslun jukust um 5,4 milljarða milli áranna 2015 og 2020, úr 2,2 milljörðum í 7,6 milljarða.

Fjöldi starfsmanna hjá fyrirtækjum í viðskiptahagkerfinu sem hófu starfsemi árið 2015 og voru enn virk árið 2020 jókst um 63%, úr tæplega 1.600 starfsmönnum árið 2015 í 2.600 starfsmenn árið 2020.

Fyrirtæki teljast hætt starfsemi hafi þau hvorki starfsmenn né rekstrartekjur í tvö almanaksár. Árið 2018 var síðasta rekstrarár 3.313 fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu, en með fyrirtækjum er einnig átt við einstaklinga með rekstur á eigin kennitölu. Á síðasta rekstrarári, árið 2018, voru þessi fyrirtæki með tæplega 50 milljarða í rekstrartekjur og yfir 3.300 starfsmenn. Hlutfall fyrirtækja sem hættu starfsemi á árinu var 10,3% og hækkaði um 0,6% samanborið við árið á undan.

Skýringar
*Farþegaflutningar; Veitinga- og gistiþjónusta; Leiga á vélknúnum ökutækjum; Leiga á tómstunda- og íþróttavörum; Ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur og önnur bókunarþjónusta; Þjónustustarfsemi tengd flutningi með flugi; Nuddstofur, sólbaðsstofur, gufuböð o.þ.h.

**Framleiðsla á efnum og efnavörum; Vopna- og skotfæraframleiðsla; Framleiðsla á tölvu-, rafeinda- og optískum vörum; Framleiðsla á rafbúnaði og heimilistækjum; Framleiðsla á öðrum ótöldum vélum og tækjum; Framleiðsla á vélknúnum ökutækjum og tengivögnum; Framleiðsla annarra farartækja; Framleiðsla á tækjum og vörum til lækninga og tannlækninga; Póst- og boðberaþjónusta; Útgáfustarfsemi; Útvarps- og sjónvarpsútsending; dagskrárgerð; Fjarskipti; Þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni; Starfsemi á sviði upplýsingaþjónustu; Vísindarannsóknir og þróunarstarf

Um gögnin
Tölfræði um lýðfræði fyrirtækja byggir á samræmdri aðferðafræði Eurostat og OECD og er því samanburðarhæf við fyrirtækjatölfræði í öðrum löndum Evrópu. Tölfræðin byggir á rekstrarframtölum fyrirtækja og einstaklinga. Hún nær til einkageirans utan landbúnaðar, fjármála- og vátryggingastarfsemi. Opinber stjórnsýsla, heilbrigðis- og félagsþjónusta, fræðslustarfsemi, menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi ásamt starfsemi félagasamtaka er undanskilin.

Tölur eru nú birtar fyrir tímabilið 2003-2020 og eru brotnar niður eftir atvinnugreinum samkvæmt íslenskri atvinnugreinaflokkun, ÍSAT2008. Fyrirtæki teljast hefja starfsemi árið sem þau byrja að hafa rekstrartekjur eða launakostnað. Þegar rekstur fyrirtækis færist á milli kennitalna telst það ekki vera nýtt fyrirtæki nema tvö af þremur eftirfarandi skilyrðum séu uppfyllt; reksturinn sé í annarri atvinnugrein skv. ÍSAT2008, reksturinn fari fram á annarri starfsstöð eða skipt hafi verið að megninu til um starfsfólk. Einnig eru gerðar leiðréttingar tengt samruna fyrirtækja og skiptingu.

Fyrirtæki sem hófu starfsemi árið t og voru virk í t+5 eru fyrirtæki sem stofnuð voru á ári t teljast enn í rekstri á ári t+5 ef þau voru virk með tilliti til rekstrartekna og/eða launaðrar atvinnu á hvaða hluta áranna t+1, t+2, t+3, t+4 og t+5 sem er (þ.e. voru enn með starfsemi án breytinga). Við úrvinnslu gagna eru gerðar leiðréttingar.

Upphæðir eru á verðlagi hvers árs.

Lýsigögn

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.