Samtals voru 752 fyrirtæki í örum vexti á vaxtartímabilinu 2015-2018 mælt í fjölgun launþega. Árið 2018 voru þessi fyrirtæki með yfir 30 þúsund starfsmenn og með 938 milljarða í rekstrartekjur. Ríflega 17% af fyrirtækjum í örum vexti, eða 129, voru fjögurra eða fimm ára gömul og voru þau með rúmlega 2.500 starfsmenn og 63 milljarða í rekstrartekjur árið 2018.
Fyrirtæki með 1-9 launþega teljast vera í örum vexti ef launþegum fjölgar um 3,31 eða fleiri yfir 3 ára tímabil. Fyrirtæki með tíu eða fleiri starfsmenn teljast í örum vexti ef árlegur meðalvöxtur í fjölda launþega er 10% eða meiri yfir 3 ára tímabil. Vöxtur fyrirtækja getur bæði orðið vegna aukinnar starfsemi og veltu (innri vöxtur) og vegna samruna eða yfirtöku á öðrum fyrirtækjum (ytri vöxtur).
Flest fyrirtæki í örum vexti í lok árs 2018 voru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða 179 fyrirtæki. Á undanförunum árum hafa flest fyrirtæki í örum vexti verið í einkennandi greinum ferðaþjónustu en þeim fækkar töluvert á milli ára, úr 220 árið 2017 í 158 árið 2018, eða um 39% á milli ára. Þá fækkun er að stærstum hluta hægt að skýra með því að fyrirtækjum með tíu starfsmenn eða fleiri fækkaði úr 101 árið 2017 í 64 árið 2018.
Þrátt fyrir að flest fyrirtæki í örum vexti séu í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð þá voru flestir starfsmenn hjá fyrirtækjum í einkennandi greinum ferðaþjónustu. Árið 2018 voru fyrirtæki í örum vexti með 10.700 starfsmenn í einkennandi greinum ferðaþjónustu, fyrirtæki í heild- og smásöluverslun með 5.100 starfsmenn og fyrirtæki í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð 3.900 starfsmenn. Hæstur árlegur meðalvöxtur í fjölda launþega yfir vaxtartímabilið 2015-2018 var í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða tæp 28%.
Hjá fyrirtækjum í örum vexti voru fyrirtæki í einkennandi greinum ferðaþjónustu einnig með mestar rekstrartekjur árið 2018 eða rúmlega 299 milljarða. Árlegur meðalvöxtur þeirra í rekstrartekjum yfir vaxtartímabilið 2014-2017 var 18% en lækkaði í 16% yfir vaxtartímabilið 2015-2018. Hæstur árlegur meðalvöxtur í rekstrartekjum yfir vaxtartímabilið 2015-2018 var í byggingariðnaði eða tæp 33%.
Um gögnin
Vöxtur fyrirtækja er einnig mældur í rekstrartekjum, sjá nánar í Talnaefni.
Tölfræði um lýðfræði fyrirtækja byggir á samræmdri aðferðafræði Eurostat og OECD og er því samanburðarhæf við fyrirtækjatölfræði í öðrum löndum Evrópu. Tölfræðin byggir á rekstrarframtölum fyrirtækja og einstaklinga. Hún nær til einkageirans utan landbúnaðar, fjármála- og vátryggingastarfsemi. Opinber stjórnsýsla, heilbrigðis- og félagsþjónusta, fræðslustarfsemi, menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi ásamt starfsemi félagasamtaka er undanskilin.
Upphæðir eru á verðlagi hvers árs.
1Framleiðsla á efnum og efnavörum; Vopna- og skotfæraframleiðsla; Framleiðsla á tölvu-, rafeinda- og optískum vörum; Framleiðsla á rafbúnaði og heimilistækjum; Framleiðsla á öðrum ótöldum vélum og tækjum; Framleiðsla á vélknúnum ökutækjum og tengivögnum; Framleiðsla annarra farartækja; Framleiðsla á tækjum og vörum til lækninga og tannlækninga; Póst- og boðberaþjónusta; Útgáfustarfsemi; Útvarps- og sjónvarpsútsending; dagskrárgerð; Fjarskipti; Þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni; Starfsemi á sviði upplýsingaþjónustu; Vísindarannsóknir og þróunarstarf.
2Farþegaflutningar; Veitinga- og gistiþjónusta; Leiga á vélknúnum ökutækjum; Leiga á tómstunda- og íþróttavörum; Ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur og önnur bókunarþjónusta.