Árið 2023 fjölgaði nýskráningum einkahlutafélaga um 1,4% frá fyrra ári en alls voru 3.074 ný einkahlutafélög skráð á árinu. Flestar nýskráningar voru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða 580 og fjölgaði þeim um 3% frá fyrra ári.
Nýskráningum fjölgaði um 21% á milli ára í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu eða úr 197 í 238. Einnig má nefna að nýskráningum fjölgaði úr 68 í 106 á milli ára í framleiðslu (56%) og úr 313 í 343 í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum (10%). Á sama tíma fækkaði nýskráningum úr 324 árið 2022 í 249 árið 2023 í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi eða um 23% á milli ára.
Ef skoðuð er skipting á nýskráningum einkahlutafélaga og hlutafélaga á milli landshluta árið 2023 sést að á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði nýskráningum úr 2.204 í 2.269 á milli ára, eða um 2,9%, en tekið saman fyrir aðra landshluta voru nýskráningar 3,6% færri en árið áður eða 807 borið saman við 837.
Nýskráningar einkahlutafélaga í desember 2023 voru 211 sem er fimm nýskráningum fleira en í desember árið áður. Flestar nýskráningar í desember voru í fjármála- og vátryggingastarfsemi eða 40. Í fasteignaviðskiptum fjölgaði nýskráningum í desember úr 21 í 30 á milli ára á meðan þeim fækkaði úr átta í þrjár í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum.
Talnaefni um nýskráningar mun framvegis uppfærast á þriggja mánaða fresti og má gera ráð fyrir að fjöldi nýskráninga fyrir janúar, febrúar og mars 2024 verði uppfærður í apríl næstkomandi.