FRÉTT FYRIRTÆKI 25. APRÍL 2025

Á fyrsta ársfjórðungi 2025 voru nýskráð 921 fyrirtæki í atvinnurekstri, þar af 783 einkahlutafélög. Til samanburðar voru 910 nýskráningar á fyrsta ársfjórðungi 2024. Flestar nýskráningar voru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða 139 sem er aukning um 4% miðað við sama tímabil fyrra árs.

Á fyrsta ársfjórðungi 2025 voru 286 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta sem er 20% fækkun frá sama tímabil fyrra árs þegar 359 fyrirtæki urðu gjaldþrota. Af þeim 286 fyrirtækjum sem tekin voru til gjaldþrotaskipta voru 106 með virkni á fyrra ári, þ.e. höfðu rekstrartekjur eða greiddu laun árið 2024. Þrátt fyrir að gjaldþrotum í heild hafi fækkað þá fjölgaði gjaldþrotum virkra fyrirtækja um 39% miðað við sama tímabil fyrra árs.

Hjá þeim virku fyrirtækjum sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á fyrsta fjórðungi 2025 störfuðu að jafnaði 500 starfsmenn árið 2024. Eftir atvinnugreinum störfuðu flestir í einkennandi greinum ferðaþjónustu, eða 192, og litlu færri í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða 154.

Um gögnin
Tölur um nýskráningar og gjaldþrot eru teknar saman samkvæmt atvinnugreinaflokkunarkerfinu ÍSAT2008 fyrir atvinnugreinabálka og nokkra atvinnugreinaflokka sem Hagstofa Íslands hefur skilgreint. Tölur um gjaldþrot fyrir síðasta mánuð eru bráðabirgðatölur og eru birtar með fyrirvara um nýjar upplýsingar um gjaldþrotabeiðnir frá dómstólum.

Lýsigögn

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.