Samtals voru 32 fyrirtæki, sem skráð voru í fyrirtækjaskrá Skattsins, tekin til gjaldþrotaskipta í janúar síðastliðnum. Af þeim voru 17 með virkni á fyrra ári, það er annað hvort með launþega samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum, 51% færri en í janúar 2020. Nýskráningar einkahlutafélaga í janúar voru 304, sem er 69% fjölgun frá janúar 2020.

Tilraunatölfræði um gjaldþrot breytt í hefðbundna útgáfu
Hagstofa Íslands gefur út tölur um gjaldþrot skráðra fyrirtækja í hverjum mánuði og birtast þær að jafnaði innan 30 daga frá því að mánuði lýkur en þá hefur stærstur hluti gjaldþrotabeiðna verið skráður í fyrirtækjaskrá Skattsins í kjölfar þess að auglýsing um gjaldþrotabeiðni er birt í Lögbirtingablaðinu. Hluti fyrirtækja sem tekin eru til gjaldþrotaskipta hefur haft lítil eða engin umsvif og því gefur fjöldi gjaldþrotabeiðna fyrir skráð fyrirtæki ekki endilega góða mynd af því hvaða áhrif gjaldþrot á hverjum tíma hafa fyrir vinnumarkað og efnahagslíf. Til að stemma stigu við þessu hóf Hagstofa Íslands í júní 2020 útgáfu tilraunatölfræði þar sem upplýsingar um gjaldþrotabeiðnir samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins voru keyrðar saman við tímanlegustu rekstrarupplýsingar árið fyrir gjaldþrot, meðalfjölda launafólks og veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum.

Hagstofa Íslands hefur nú ákveðið að taka talnaefni um gjaldþrot og virkni fyrirtækja í almenna birtingu samhliða talnaefni fyrir gjaldþrot skráðra fyrirtækja. Tölur eru teknar saman samkvæmt atvinnugreinaflokkunarkerfinu ÍSAT2008 fyrir atvinnugreinabálkana F Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og G Heild- og smásöluverslun og viðgerðir á vélknúnum ökutækjum auk Einkennandi greina ferðaþjónustu samkvæmt skilgreiningu Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Talnaefni verður uppfært mánaðarlega og fréttatilkynning birt á ársfjórðungs fresti.

Til að bæta tímanleika á birtingu fyrir nýskráningar félaga verður talnaefni fyrir nýskráningar framvegis uppfært innan tíu daga frá lokum hvers mánaðar og er fyrsta uppfærsla, fyrir nýskráningar í febrúar 2020, komin á birtingaráætlun þann 8. mars næstkomandi. Talnaefni fyrir nýskráningar verður eftir sem áður uppfært mánaðarlega, án fréttatilkynningar.

Tölur um gjaldþrot fyrir síðasta mánuð eru bráðabirgðatölur og eru birtar með fyrirvara um bættar upplýsingar um gjaldþrotabeiðnir frá dómstólum.

Nánari upplýsingar í lýsigögnum um gjaldþrot.

Talnaefni