Velta í viðskiptahagkerfinu var um 3.900 milljarðar króna árið 2016 en 3.750 milljarðar árið 2015 og hækkaði því um 4,2% á milli ára. Eigið fé jókst um tæplega 9% frá 2015 og var í lok árs 2016 um 2.650 milljarðar. Eiginfjárhlutfall var um 42% í lok árs en það er aukning um 2 prósentustig frá árinu 2015.
Rekstrar- og efnahagsreikningar eru unnir úr skattframtölum fyrirtækja og fyrir árið 2016 liggja þar að baki rúmlega 34 þúsund framtöl. Hjá þessum 34 þúsund fyrirtækjum eru 118 þúsund launþegar í 441 atvinnugrein skv. ÍSAT-atvinnugreinaflokkun Hagstofunnar.
Helstu breytingar milli ára þegar litið er til hækkunar rekstrartekna eru í atvinnumiðlun, þar sem rekstrartekjur jukust um 2,8 milljarða (180%); fiskeldi 4,8 milljarðar (50%); starfsemi á sviði upplýsingaþjónustu 3,3 milljarðar (30%) og rekstur gististaða 19 milljarða (30%). Þær atvinnugreinar þar sem rekstrartekjur lækkuðu mest voru framleiðsla málma, 53 milljarðar (-22%) og sjávarútvegur þar sem rekstrartekjur lækkuðu um 42 milljarða (-11%).
Mikill vöxtur hefur verið í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og jukust rekstrartekjur um 28% milli áranna 2015 og 2016, úr 233 milljörðum í 299 milljarða. Þá hækkaði launakostnaður í greininni um 28% og virðist því haldast í hendur við tekjuaukningu. Eiginfjárhlutfall hækkaði um 1 prósentustig milli ára og er 23%, en eigið fé hækkaði um rúmlega 30%. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) hækkaði um 55%, úr 22 milljörðum í 34 milljarða milli ára.
Rekstrartekjur fyrirtækja í sjávarútvegi lækkuðu á milli áranna 2015 og 2016. Á móti kemur að rekstrarkostnaður lækkaði einnig og þá voru fjármagnsliðir og óreglulegir liðir til hækkunar. Hagnaður samkvæmt ársreikningi hækkaði því á milli ára um 6,5 milljarða (11%). Þá lækkuðu langtímaskuldir sjávarútvegsfyrirtækja um 6% og eigið fé jókst um 18%.
Vöxtur einkennandi greina ferðaþjónustu hélt áfram á árinu 2016. Milli áranna 2015 og 2016 jukust rekstrartekjur um 60 milljarða króna (12%) og hagnaður fyrir fjármagnsliði um 4,6 milljarða (11%). Þá heldur eigið fé í greinunum áfram aukast, er nú 118 milljarðar og hækkaði um 26 milljarða (28%) milli ára. Þá er eiginfjárhlutfall greinanna 27% og hefur það hækkað stöðugt frá 2009 þegar það var neikvætt. Launþegum í einkennandi greinum ferðaþjónustu fjölgar áfram og voru þeir rúmlega 24 þúsund árið 2016, sem er rúmlega 20% aukning frá fyrra ári. Á sama tíma jókst launakostnaður um 27 milljarða (26%).
Tafla 1. Valdir liðir úr rekstrar- og efnahagsyfirlitum árin 2015 og 2016 í milljörðum króna | |||||||||
Rekstrartekjur | Eigið fé | Hagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) | |||||||
Atvinnugrein/atvinnugreinahópur | 2015 | 2016 | Breyting | 2015 | 2016 | Breyting | 2015 | 2016 | Breyting |
Viðskiptahagkerfið, að undanskilinni lyfjaframleiðslu, fjármála- og vátryggingastarfsemi | 3.750 | 3.907 | 4% | 2.437 | 2.652 | 9% | 363 | 356 | -2% |
Einkennandi greinar ferðaþjónustu | 490 | 549 | 12% | 92 | 118 | 28% | 41 | 45 | 11% |
Heildverslun, að undanskildum vélknúnum ökutækjum | 656 | 649 | -1% | 115 | 121 | 6% | 27 | 32 | 19% |
Smásöluverslun, að undanskildum vélknúnum ökutækjum | 388 | 415 | 7% | 98 | 105 | 7% | 18 | 20 | 13% |
Sjávarútvegur | 371 | 329 | -11% | 254 | 299 | 18% | 65 | 48 | -26% |
Framleiðsla án fiskvinnslu | 611 | 579 | -5% | 565 | 490 | -13% | 25 | -5 | -119% |
Framleiðsla málma | 247 | 194 | -22% | 326 | 260 | -20% | 13 | -19 | -241% |
Rafmagns-, gas- og hitaveitur | 145 | 143 | -1% | 593 | 567 | -4% | 44 | 38 | -12% |
Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð | 233 | 299 | 28% | 62 | 82 | 31% | 22 | 34 | 55% |
Meðal- og hátækniframleiðsla | 84 | 82 | -2% | 151 | 139 | -8% | 6 | 1 | -81% |
Hátækniþjónusta | 201 | 216 | 7% | 106 | 127 | 20% | 12 | 18 | 46% |
Skapandi greinar | 158 | 172 | 9% | 41 | 49 | 19% | 11 | 15 | 46% |
Tækni- og hugverkaiðnaður | 285 | 298 | 4% | 256 | 266 | 4% | 18 | 19 | 5% |
Sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi | 139 | 147 | 6% | 72 | 109 | 52% | 15 | 17 | 13% |
Upphæðir eru á verðlagi hvers árs |
Þetta er aðeins brot af því sem fram kemur þeim gögnum sem Hagstofar birtir nú. Til að skoða þessar og fleiri atvinnugreinar er smellt á hlekkinn hér að neðan.
Talnaefni