FRÉTT FYRIRTÆKI 14. DESEMBER 2022

Heildartekjur í viðskiptahagkerfinu, án fjármálastarfsemi og lyfjaframleiðslu, voru tæplega 5.100 milljarðar króna árið 2021 samanborið við tæplega 4.300 milljarða króna árið 2020. Aukningin var óvenjumikil, raunar sú þriðja mesta síðan 2002, eða um 18% mælt á verðlagi hvers árs og vel umfram verðbólgu ársins sem var 5,1%.

Mest var aukning tekna í einkennandi greinum ferðaþjónustu, framleiðslu málma og fasteignaviðskiptum. En þrátt fyrir hlutfallslega mikla tekjuaukningu hjá ferðaþjónustunni gætti áhrifa kórónuveirufaraldursins enn og var greinin einungis sú fimmta stærsta árið 2021 eftir að hafa verið næst stærst 2019. Heild- og smásöluverslun, tækni- og hugverkaiðnaður og sjávarútvegur voru allar stærri sé miðað við heildartekjur ársins.

Fasteignamarkaðurinn var allsráðandi á árinu og reyndist afkoman í greininni jafngilda tvöföldum hagnaði sjávarútvegsins sem jafnframt var næst arðbærasta atvinnugreinin árið 2021. Einkennandi greinar ferðaþjónustunnar skiluðu hins vegar tapi upp á tæpa 3,6 milljarða króna sem að miklu leyti mátti rekja til bágrar afkomu í flugrekstri. Þetta var þó töluverður viðsnúningur frá fyrra ári en tap ferðaþjónustunnar nam þá um 89 milljörðum króna. Alls var afkoma viðskiptahagkerfisins í heild jákvæð um 674 milljarða króna sem enn fremur var rúmum 500 milljörðum króna umfram hagnað ársins 2020. Hagnaður af fasteignaviðskiptum (178 milljarðar króna) var því rúmur fjórðungur af hagnaði alls hagkerfisins árið 2021.

Almennt voru kostnaðarliðir viðskiptahagkerfisins í samræmi við þróun undanfarinna ára. Vöru- og hráefniskaup voru 48% af heildartekjum og framlegð því 52%. Fyrningar og annar rekstrarkostnaður var sambærilegur kostnaði fyrri ára. Fjármagnsliðir (vaxtatekjur, vaxtagjöld, gengisáhrif) voru neikvæðir um 31 milljarð króna sem var töluvert betra en undanfarin þrjú ár en þó nærri meðaltali fyrri ára. Launakostnaður jókst um 10% en var engu að síður óbreyttur í hlutfalli af tekjum miðað við fyrra ár.

Fjöldi launþega jókst á ný árið 2021 eftir fækkanir í tvö ár. Alls bættust 1.742 í hóp launþega í viðskiptahagkerfinu og jafngilti það um 2% fjölgun frá fyrra ári. Áður hafði launþegum fækkað um 3% árið 2019 og 11% árið 2020. Til samanburðar fækkaði launþegum einungis einu sinni áður á tímabilinu 2003 til 2021 en það var árið 2009 (samdrátturinn nam þá 12%). Samanlagt fækkaði launþegum því meira árið 2019 og í faraldrinum árið 2020 en í kjölfar fjármálahrunsins. Helst fækkaði launþegum í veitustarfsemi (um 4%), ferðaþjónustu (2%) og sjávarútvegi (1%).

Launakostnaður á hvern launþega jókst fyrir vikið um 8% fyrir viðskiptahagkerfið í heild sinni. Hlutfallslega var mest aukning í ferðaþjónustu og fasteignaviðskiptum, eða um 15% og 11%. Laun voru engu að síður lægst í ferðaþjónustunni og smásöluverslun miðað við 15 stærstu atvinnugreinar landsins. Mestur var launakostnaður á hvern launþega í sjávarútvegi og veitustarfsemi eða um tvöfaldur kostnaðinum í smásöluverslun og ferðaþjónustu árið 2021. Að jafnaði hefur launakostnaður verið um 20% af heildartekjum hagkerfisins og árið 2021 var engin undantekning frá því.

Almennt batnaði efnahagsstaða hagkerfisins og helstu atvinnugreina árið 2021. Góð afkoma skilaði auknu eigin fé og hlutfall langtímaskulda af eigin fé batnaði hjá flestum greinum. Bæði langtímaskuldir og eigið fé jukust hjá öllum helstu greinum en almennt var aukningin á eigin fé meiri en hækkun skulda. Heilt yfir voru langtímaskuldir 87% af eigin fé viðskiptahagkerfisins árið 2021 sem var 12 prósentustigum undir gildi fyrra árs. Hlutfallslega batnaði efnahagsstaðan mest í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna, fasteignaviðskiptum, sölu, viðgerðum og viðhaldi á vélknúnum ökutækjum og tengivögnum og smásöluverslun. Í tækni- og hugverkaiðnaði, ferðaþjónustu og upplýsingatækni og fjarskiptum jukust skuldir hins vegar umfram aukningu eigin fjár en voru þó á viðunandi stað miðað við almenn rekstrarviðmið.

Ferðaþjónustan
Takmarkaður viðsnúningur var í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar. Heildartekjur hækkuðu um 45% árið 2021 eða úr tæplega 279 milljörðum króna í 405 milljarða króna. Þrátt fyrir hlutfallslega mikla aukningu á milli ára voru tekjurnar engu að síður einungis um tveir þriðju af því sem þær voru árið 2019 fyrir faraldurinn. Tekjurnar voru 628 milljarðar króna árið 2019 en drógust saman um rúman helming árið 2020. Eins og áður sagði var greinin því einungis sú fimmta stærsta árið 2021 eftir að hafa verið næst stærst árið 2019. Sé miðað við fjölda launþega var greinin hins vegar sú stærsta með 19.047 starfsmenn sem þó er 2% minna en árið 2020 og tæpum þriðjungi minna en árið 2019.

Tekjur jukust hjá öllum greinum ferðaþjónustunnar. Sem dæmi má nefna nærri tvöföldun tekna hjá ferðaskrifstofum, úr tæpum 28 milljörðum króna í 54 milljarða króna, og 67% hækkun hjá hótelum og gistiheimilum. Þá jókst leiga á vélknúnum ökutækjum um 63%, tekjur veitingastaða hækkuðu um 36% og farþegaflutningar með flugi um 24% en sú grein átti þó enn langt í land miðað við árið 2019.

Afkoma greinarinnar í heild var neikvæð um 3,6 milljarða króna en helstu greinar ferðaþjónustunnar skiluðu hagnaði að undanskildum flugrekstri og farþegaflutningum á sjó, landi og með flugi. Þannig var tap í farþegaflutningum með flugi upp á tæpa 16 milljarða króna sem óneitanlega dró niður heildarafkomu ferðaþjónustunnar. Þá var hagnaður annarra ferðaþjónustugreina misjafn. Til dæmis einungis 215 milljónir króna hjá hótelum og gistiheimilum en 2,8 milljarðar króna hjá veitingastöðum og 2,6 milljarðar hjá ferðaskrifstofum. Þrátt fyrir að hótel og gistiheimili hafi aðeins skilað 215 milljóna króna hagnaði var því vart líkjandi við árið 2020 þegar þau töpuðu 17 milljörðum króna. Almennt voru þessar afkomutölur tiltölulega lýsandi fyrir árið 2021 enda var nokkuð um afléttingar á sóttvarnatakmörkunum innanlands en minna á landamærunum. Þá sást fyrir endann á faraldrinum sem skýrði mikinn viðsnúning í bókunum hjá ferðaskrifstofum.

Fasteignaviðskipti
Methagnaður var í fasteignaviðskiptum árið 2021. Alls nam hagnaðurinn 178 milljörðum króna samanborið við 56 milljarða króna árið 2020. Tekjur í greininni jukust um 60 milljarða króna, eða 30% frá fyrra ári, sem jafnframt var þriðja mesta hækkun síðan 2002. Einungis árin 2004 og 2011 var hlutfallslega meiri hækkun (38% og 46%). Hækkunin var langt umfram þær hækkanir sem áttu sér stað á síðastliðnum árum en árin 2017 til 2020 var hækkunin einungis á bilinu 4% til 9%.

Takmarkað framboð, aukin eftirspurn og lágt vaxtastig áttu þátt í því að skapa umhverfi fyrir miklar verðhækkanir á fasteignamarkaði sem skiluðu jákvæðri matsbreytingu í rekstri fasteignafélaga. Þannig hækkaði vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis fyrir landið allt um 15,9% árið 2021 en það var jafnframt mesta hækkun eftir aldamót að undanskildu árinu 2005. Fjöldi launþega í greininni jókst um 3% frá fyrra ári (44 manns) og launakostnaður jókst um 14%. Laun, þ.e. launakostnaður á hvern launþega, hækkuðu því um rúm 11% sem var næst mesta launahækkun á meðal helstu atvinnugreinanna. Loks var lítil breyting á skuldastöðu í geiranum og því batnaði efnahagsstaðan töluvert á milli ára. Hlutfall langtímaskulda af eigin fé lækkaði þannig um 25 prósentustig, úr 159% í 134%.

Framleiðsla málma
Heimsmarkaðsverð á áli hækkaði mikið árið 2021 sem skilaði sér í 43% aukningu heildartekna í framleiðslu málma, úr 227 milljörðum króna árið 2020 í 325 milljarða króna. Hagnaður ársins (53 milljarðar króna) var sá fjórði mesti í viðskiptahagkerfinu og breytingin á afkomu frá fyrra ári sú þriðja mesta í krónum talið en greinin tapaði tæpum 19 milljörðum króna árið 2020. Einungis var betri afkoma í fasteignaviðskiptum, tækni- og hugverkaiðnaði og sjávarútvegi árið 2021.

Sjávarútvegur
Sjávarútvegurinn skilaði ágætri tekjuaukningu á milli ára eða 12% vexti, úr 374 milljörðum króna í 419 milljarða króna, en hagnaðurinn (89 milljarðar króna) nærri þrefaldaðist árið 2021 og skilaði enginn grein önnur en fasteignaviðskipti meiri hagnaði. Hagnaðaraukninguna má helst rekja til almennra framfara í rekstri; aukinna tekna samfara hlutfallslega lægri kostnaði, jákvæðrar afkomu af fjármagnsliðum og bættrar afkomu dótturfélaga. Eins og áður sagði fækkaði launþegum í greininni um 1% og laun hækkuðu um 8%. Þá lækkuðu langtímaskuldir í hlutfalli af eigin fé um fimm prósentustig.

Aðrar helstu greinar hagkerfisins
Almennt var góður gangur í öðrum helstu atvinnugreinum og atvinnugreinahópum viðskiptahagkerfisins árið 2021 samanborið við fyrra ár. Heild- og smásöluverslun voru stærstu greinarnar en þar jukust tekjur um 17% og 10%. Hagnaðurinn ríflega tvöfaldaðist í heildverslun og afkoma smásöluverslunar var ekki fjarri því. Launþegum fjölgaði um 4% í heildverslun og 2% í smásöluverslun en launakostnaður á hvern launþega hækkaði aftur á móti um 6% í heildverslun og 7% í smásöluverslun. Þá batnaði efnahagsstaðan hjá báðum greinum.

Ólíkt því sem þekktist sums staðar erlendis sást ekki mikið stökk í afkomu tæknitengdra greina en tekjurnar jukust þó jafnt og þétt í gegnum faraldurinn frá 2019 til 2021. Tækni- og hugverkaiðnaður, sem var þriðja stærsta atvinnugrein á Íslandi, skilaði 55 milljarða króna hagnaði og 8% vexti í tekjum árið 2021. Hátækniþjónusta og upplýsingatækni og fjarskipti voru á svipuðu reiki með um 27 milljarða króna hagnað hvor og um 10% vöxt í tekjum. Afkomuaukninguna mátti helst rekja til kostnaðarhagkvæmni en launakostnaður hækkaði minna hjá tæknigreinunum en í viðskiptahagkerfinu í heild sinni auk þess sem fjöldi launþega var lítið breyttur. Efnahagsstaða hátækniþjónustu breyttist lítið en í tækni- og hugverkaiðnaði og upplýsingatækni og fjarskiptum jukust skuldir umfram eigið fé um 11% annars vegar og 4% hins vegar á milli ára.

Af öðrum greinum má nefna 25% tekjuvöxt og sexfalda hagnaðaraukningu í sölu, viðgerðum og viðhaldi á vélknúnum ökutækjum og tengivögnum. Þessi þróun var ekki ósvipuð því sem þekktist erlendis enda átti greinin við mikinn framboðsvanda að stríða sem mætti svo aukinni eftirspurn eftir því sem takmörkunum vegna faraldursins tók að linna. Þá var ágæt fjölgun launþega í byggingastarfsemi, 5% í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna og 4% í sérhæfðri byggingarstarfsemi. Almennt mátti enn greina áhrif faraldursins í gögnum ársins þrátt fyrir að uppgangur í hagkerfinu væri hafinn og fara mætti að sjá fyrir enda hans. Heilt yfir var árið 2021 því gott fyrir viðskiptahagkerfið með tekjuvexti og jákvæðri breytingu á afkomu í nær öllum greinum.

Um gögnin
Rekstrar- og efnahagsreikningar eru unnir úr skattframtölum rekstraraðila og telja tæplega 35.000 aðila árið 2021 með um 114 þúsund launþega. Tölur fyrir árið 2021 eru bráðabirgðatölur og verða uppfærðar við næstu útgáfu. Gögnin innihalda eingöngu þá aðila sem skilað hafa skattframtali.

Fyrir tímanlegri upplýsingar gefur Hagstofa Íslands einnig út tölur um virðisaukaskattskylda veltu eftir atvinnugreinum ásamt mánaðarlegum tölum um fjölda starfandi. Þá eru einnig gefnar út tölur um fjölda launþega og fjölda launagreiðenda.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.