FRÉTT FYRIRTÆKI 06. DESEMBER 2023

Heildartekjur í viðskiptahagkerfinu, án fjármála- og vátryggingastarfsemi, voru tæplega 6.298 milljarðar króna árið 2022 samanborið við 5.215 milljarða króna árið 2021. Hækkunin var óvenju mikil líkt og árið 2021, eða um 21% mælt á verðlagi hvers árs og vel umfram verðbólgu ársins sem var 8,3%. Þetta var jafnframt mesta hækkun heildartekna síðan 2006 en þá jukust tekjur um 24% á milli ára. Aukin eftirspurn, verðbólga og stýrivaxtahækkanir einkenndu árið þar sem afkoma fyrirtækja var góð en mikill tekjuvöxtur veginn niður af vaxandi fjármagns- og aðfangakostnaði.

Helstu niðurstöður ársins voru meðal annars:

  • Mesta hækkun tekna síðan 2006
  • Ferðaþjónustan aftur orðin næst stærsta atvinnugrein landsins
  • Stöðnun í fasteignaviðskiptum
  • Methagnaður í málmframleiðslu
  • Vaxandi fjármagnskostnaður

Mikil tekjuaukning í ferðaþjónustu
Mest var hækkun tekna í einkennandi greinum ferðaþjónustu en heildartekjur ferðaþjónustunnar námu tæplega 748 milljörðum króna sem var 79% aukning frá fyrra ári. Tekjurnar voru þar með orðnar meiri að raunvirði en fyrir kórónuveirufaraldurinn árið 2019 og greinin aftur sú næststærsta árið 2022 eða alls 12% af viðskiptahagkerfinu. Áður hafði ferðaþjónustan verið næststærst árið 2019 en árið 2021 var hún einungis sú fimmta stærsta. Mikill vöxtur var í öllum undirgreinum ferðaþjónustunnar en mest áberandi var ríflega tvöföldun á tekjum í farþegaflutningum og hjá ferðaskrifstofum enda opnaðist landið aftur fyrir erlenda ferðamenn að fullu árið 2022. Þá var 67% tekjuaukning í rekstri gististaða, 71% í leigu á vélknúnum ökutækjum og 23% í veitingasölu og -þjónustu.

Af öðrum greinum atvinnulífsins má helst nefna 35% aukningu tekna í framleiðslu málma en heimsmarkaðsverð á áli hækkaði mjög snarpt snemma árs 2022 auk þess sem gengi krónunnar veiktist. Svipaðra áhrifa gætti í sjávarútvegi þar sem tekjur jukust um 15%. Þá hækkuðu tekjur í sölu á vélknúnum ökutækjum um 20%, 19% í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna og 26% í framleiðslu á kvikmyndum, sjónvarpsefni og tónlist en töluverður vöxtur hefur átt sér stað í greininni undanfarin ár þar sem tekjur hafa aukist jafnt og þétt um 75% síðan 2018.

Athygli vekur að tekjur í fasteignaviðskiptum voru nær óbreyttar árið 2022 miðað við fyrra ár en mikill vöxtur átti sér stað árið 2021 þegar tekjurnar jukust um 34% og greinin skilaði methagnaði.1 Tekjur ársins 2022 voru tæplega 274 milljarðar króna samanborið við 275 milljarða króna árið 2021 og því ljóst að snarlega hægðist á fasteignamarkaðinum árið 2022. Af 15 stærstu atvinnugreinum landsins voru fasteignaviðskipti eina greinin þar sem tekjurnar jukust ekki á milli ára.

Mestur hagnaður í fasteignaviðskiptum
Þrátt fyrir óbreyttar tekjur á milli ára var mesti hagnaður ársins 2022 í fasteignaviðskiptum eða 122 milljarðar króna. Þetta var engu að síður 31% lækkun frá fyrra ári þegar hagnaðurinn reyndist tæplega 177 milljarða króna en fjármagnskostnaður jókst um 64 milljarða króna á árinu 2022 sem rekja mátti til áhrifa hærri vaxta og verðbólgu. Góð afkoma var í tæknigreinum þar sem næstbesta afkoman í viðskiptahagkerfinu var í tækni- og hugverkaiðnaði. Hagnaður í atvinnugreinahópnum jókst um 87% og nam 67 milljörðum króna samanborið við 36 milljarða króna árið áður. Þar hafði upplýsingatækni og fjarskipti mikil áhrif en hagnaður greinarinnar nær þrefaldaðist á milli ára sem mátti að mestu rekja til bættrar afkomu fjarskiptagreina um tæpa 30 milljarða króna vegna arðbærrar sölu eigna.

Algjör viðsnúningur var á afkomu ferðaþjónustunnar sem skilaði hagnaði upp á 23 milljarða króna árið 2022 samanborið við þriggja milljarða tap árið 2021. Nær helming hagnaðarins mátti rekja til leigu á vélknúnum ökutækjum en afkoman batnaði samt umtalsvert í flestum greinum ferðaþjónustunnar enda fóru rekstraráhrif kórónuveirufaraldursins mjög dvínandi. Til dæmis nær fjórfaldaðist hagnaður ferðaskrifstofa og fimmfaldaðist hjá hótelum og gistiheimilum.

Fyrirtæki í málmframleiðslu skiluðu 84 milljarða króna hagnaði sem var 58% aukning frá fyrra ári og jafnframt mesti hagnaður greinarinnar á tímabilinu. Hagnaður í sjávarútvegi dróst hins vegar saman um 12% í 78 milljarða króna þar sem verð á aðföngum hækkaði. Sömu sögu var að segja í heild- og smásöluverslun þar sem hagnaður dróst saman um 18% og 25%. Aftur á móti var 45% aukning á hagnaði í sölu ökutækja. Flestar greinar atvinnulífsins skiluðu hagnaði árið 2022 en alls var afkoma viðskiptahagkerfisins í heild jákvæð um 751 milljarð króna sem var 13% aukning frá fyrra ári.

Vaxandi fjármagnskostnaður
Alls hækkuðu rekstrargjöld viðskiptahagkerfisins um 19% á árinu eða 894 milljarða króna. Rekstrarkostnaður hækkaði í öllum helstu greinum nema fasteignaviðskiptum en þar hækkaði þó fjármagnskostnaður mikið. Almennt þróaðist kostnaður með svipuðum hætti í helstu greinum og heilt yfir voru litlar breytingar á samsetningu kostnaðarliða enda jókst kostnaður að mestu í samræmi við aukningu tekna (vöruinnkaup jukust til móts við aukna sölu). Þannig voru vöru- og hráefniskaup 46,5% af heildartekjum samanborið við 47,2% árið áður. Hluti fyrninga og annars rekstrarkostnaðar var einnig að mestu óbreyttur en þó fór að bera á auknum fjármagnskostnaði hjá fyrirtækjum enda breyttist vaxtastig mikið á árinu með hækkun meginvaxta Seðlabankans úr 2% í 6%. Afkoma af fjármagnsliðum varð þar með neikvæðari um 39 milljarða króna (úr -25 milljörðum króna í -64 milljarð króna) og tvöfaldaðist hluti fjármagnsliða af heildartekjum úr 0,5% í 1% árið 2022.2

Launakostnaður hækkaði um 183 milljarða króna eða 17% en var engu að síður tiltölulega lítið breyttur í hlutfalli af tekjum (19,6% samanborið við 20,1% árið áður). Fjöldi starfsmanna jókst hins vegar um rúmlega 8% sem var það mesta síðan 2002. Þá hækkaði launakostnaður á hvern starfsmann (laun) um 8,5% fyrir viðskiptahagkerfið í heild sinni og því ögn umfram verðbólgu ársins. Hæstur var launakostnaður á hvern starfsmann í sjávarútvegi og jókst hann um 18% en starfsfólki fækkaði einnig um 2% í greininni á milli ára. Alls voru um 7.700 starfandi í sjávarútvegi árið 2022 en starfsfólki hefur fækkað þar nær samfellt um fjórðung síðan 2013. Aftur á móti fjölgaði starfsmönnum mest í einkennandi greinum ferðaþjónustu eða um 6.300 (32% aukning) og voru tæplega 26 þúsund starfandi í þessari fjölmennustu grein hagkerfisins í árslok 2022. Laun í greininni voru samt sem áður næstum helmingi lægri en í sjávarútvegi og fjöldi starfsfólks enn nokkuð frá fyrri hæðum sem náðust árið 2018 þegar nærri 31 þúsund störfuðu hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu.

Bætt efnahagsstaða og auknar birgðir
Almennt batnaði efnahagur helstu atvinnugreina hagkerfisins árið 2022. Góð afkoma skilaði auknu eigin fé sem jókst um alls 18% á árinu. Þá batnaði skuldastaða fyrirtækja sömuleiðis þar sem heildarskuldir jukust um einungis 10%, langtímaskuldir hækkuðu um 8% og skammtímaskuldir um 14%. Eignir, sem jukust um 14%, voru því að minna leyti fjármagnaðar með skuldum og var hlutfall skulda af eignum alls 53% árið 2022 samanborið við 55% árið 2021.

Nokkra athygli vekur umtalsverð aukning birgða á milli ára en þær jukust um ríflega 165 milljarða króna eða 34% árið 2022. Hækkun var á birgðastöðu í nær öllum helstu atvinnugreinum og voru ýmsir þættir því valdandi sem jafnframt vörpuðu ágætu ljósi á almenna þróun hagkerfisins á árinu. Uppgangur eftir lægð kórónuveirufaraldursins og tilsvarandi aukin eftirspurn hvatti mörg fyrirtæki óhjákvæmilega til að auka við birgðir sem enn fremur birtist í miklum vexti heildartekna. Þá leiddi veiking krónunnar og verðhækkanir á hrávöru- og afurðamörkuðum í kjölfar faraldursins og stríðsátaka til hækkunar á virði birgða í útflutningsgreinum, einkum framleiðslu málma og í sjávarútvegi. Í byggingu húsnæðis, þróun byggingarverkefna og fasteignaviðskiptum var einnig töluverð birgðaaukning vegna verka í vinnslu og í tækni- og hugverkaiðnaði leiddi mikil eftirspurn eftir vörum tengdum heilbrigðisgeiranum til aukinna birgða. Loks urðu aðföng almennt dýrari vegna hærri verðbólgu sem enn fremur jók kostnað og dró úr jákvæðum áhrifum aukinnar eftirspurnar á afkomu ýmissa greina viðskiptahagkerfisins.

Um gögnin
Rekstrar- og efnahagsreikningar eru unnir úr skattframtölum rekstraraðila sem telja rúmlega 35.000 aðila árið 2022 með um 127 þúsund launþega. Tölur fyrir árið 2022 eru bráðabirgðatölur og verða uppfærðar við næstu útgáfu. Gögnin innihalda eingöngu þá aðila sem skilað hafa skattframtali.

Fyrir tímanlegri upplýsingar gefur Hagstofa Íslands einnig út tölur um virðisaukaskattskylda veltu eftir atvinnugreinum ásamt mánaðarlegum tölum um fjölda starfandi. Þá eru einnig gefnar út tölur um fjölda launþega og fjölda launagreiðenda.

1 Til fasteignaviðskipta teljast kaup og sala á eigin fasteignum, leiga íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, leiga á landi og landréttindum, fasteignamiðlun og fasteignarekstur. Vert er að nefna að mats- og gangvirðisbreytingar fasteigna geta haft veruleg áhrif á tekjur og afkomu rekstraraðila í greininni.

2 Til fjármagnsliða geta auk vaxtatekna og vaxtagjalda einnig talist ýmsar gengisbreytingar á verðbréfum, söluhagnaður af hlutabréfum og hreinar tekjur af fjármálagerningum. Breytingar á einstaka fjármagnsliðum í ákveðnum greinum geta þannig haft töluverð áhrif á heildarniðurstöðuna jafnt til hækkunar sem lækkunar. Til dæmis var mikill söluhagnaður af hlutabréfum í fjarskiptum á árinu 2022 sem olli því að fjármagnsliðir í þeirri grein voru jákvæðir um tæpan 31 milljarð króna. Í flestum greinum voru þó skýr merki um aukinn fjármagnskostnað þar sem fjármagnsliðir voru neikvæðir og lækkuðu á milli ára.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.